Hoppa yfir valmynd
8. desember 2011 Utanríkisráðuneytið

Myndlistarsýning opnuð - uppboð á völdum verkum til stuðnings mannúðarmálum

Peking-sr-uppbod-8.12.2011
Peking-sr-uppbod-8.12.2011

Sýning á verkum um þrjátíu íslenskra og kínverskra samtímalistamanna var opnuð í sendiráði Íslands í dag. Yfirskrift sýningarinnar sem haldin er  í samvinnu sendiráðsins við The Chinese European Art Center (CEAC) í Xiamen er Þjóðaspjall: Myndlist og ljóðlist. Hluti sýningarinnar er innsetning brota úr ljóðum íslenskra skálda sem tóku þátt í ljóðahátíð í Kína í haust. Sýningarstjóri er Ineke Gudmundsson sem stofnaði framangreinda listamiðstöð í Xiamen ásamt Sigurði Guðmundssyni eiginmanni sínum fyrir rúmum áratug. Hluti verkanna er til sölu og hófst í dag uppboð á völdum verkum. Ágóðinn rennur til Menningarmiðstöðvar landsbyggðarkvenna í Kína en hún er rekin af mannúðarsamtökum sem vinna markvisst að því að draga úr félagslegri einangrun ungra kvenna í hinum dreifðu byggðum Kína. Heiðursgestir við opnun sýningarinnar í sendiráðinu í dag voru Sigurður Guðmundsson listamaður og prófessor Wu Qing sem er forstöðukona menningarmiðstöðvarinnar.

Íslenskir myndlistarmenn sem eiga verk á sýningunni Þjóðaspjall: Myndlist og ljóðlist eru Hulda Hákon, Hreinn Friðfinnson, Inga Svala Þórsdóttir, Jón Óskar, Kristján Guðmundsson, Ragna Róbertsdóttir, Sara Riel, Sigurður Guðmundsson,  Hreinn Friðfinnssson, Helena Hansdóttir, Erró, Erla Harldsdóttir, Erla Þórarinsdóttir, Goddur, Guðrún Einarsdóttir, Guðrún Kristjánsdóttir og Gjörningaklúbburinn en í honum eru Eirún Sigurðardóttir, Jóní Jónsdóttir og Sigrún Hrólfsdóttir. Þá er að finna í sendiráðinu verk Ásgríms Jónssonar, Jóhönnu Bogadóttur, Jóns Reykdal, Sigurðar Sigurðssonar og Tryggva Ólafssonar sem öll eru í eigu Listasafns Íslands. Kínversku listamennirnir sem taka þátt í sýningunni eru Kan Xuan, Xu Huijing, Yang Jian, Jia Zhixing, Huang Yan.

Ísland í brennidepli í kínverska sjónvarpinu

Á þessum degi fyrir fjórum áratugum tók gildi ákvörðun stjórnvalda í Kína og á Íslandi um gagnkvæma viðurkenningu og formlegt stjórnmálasamband milli ríkjanna. Þessa hefur verið minnst með margvíslegum hætti á árinu bæði í Kína og á Íslandi. Sendiráð Ísland í Kína efndi m.a. til viðamikillar menningarviku í Peking í október og hefur efnt til sérstakrar samvinnu við kínverska ríkissjónvarpið, CCTV. Fyrsti sjónvarpsþátturinn sem er afrakstur þess samstarfs verður frumsýndur í kínverska sjónvarpinu í kvöld og er ferðaþáttur.

Um samstarfsaðilana

Kínversk evrópska listamiðstöðin CEAC í Xiamen var stofnuð 1999. Miðstöðin skipuleggur listasýningar og aðra menningarviðburði og hvers konar samtímasýningar s.s. kvikmyndasýningar og hönnunarsýningar stendur fyrir tónlistarviðburðum og útgáfu listaverkabóka. Listamiðstöðin hefur frá árinu 2001 tekið á móti hundruðum evrópskra listamanna í Xiamen sem margir hverjir hafa dvalið um tíma í gestaíbúðum og haft aðgang að gestavinnustofum CEAC. Ineke Gudmundsson er stofnandi CEAC. Nánari upplýsingar er að finna á ccc.ceac99.org.

Menningarmiðstöð landsbyggðarkvenna er heiti sjálfboðaliða- og mannúðarsamtaka sem vinnur að uppbyggingu og velferðarmálum kvenna í hinum dreifðu byggðum. Samtökin hófu starfsemi sína á útgáfu tímarits en á þeirra vegum hafa á síðustu árum verið byggð upp margvísleg stuðnings- og framfaraverkefni sem ætlað er að styrkja ungar og fátækar konur, efla félagsfærni, sjálfstraust og samvinnu meðal kvenna.  Professor Wu Qing er ein af stofnendum samtakanna. Íslensk kona, Erla Karen Magnúsdóttir, fékk rausnarlegan styrk frá Auði Capital á Íslandi til verkefna í samvinnu við samtökin og er starf hennar mikils metið af þeim.

Nánari upplýsingar má finna á eftirfarandi síðum:

www.iceland.is/cn

www.utanrikisraduneyti.is/frettir

www.nongjianv.org

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta