Hoppa yfir valmynd
9. desember 2011 Matvælaráðuneytið

Fréttatilkynning frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu.

Nr. 65/2011

Ekki náðist samkomulag um skiptingu aflaheimilda í makrílveiðum á Norðaustur-Atlantshafi á næsta ári á fundi strandríkjanna fjögurra, Íslands, ESB, Noregs og Færeyja, sem haldinn var í Clonakilty á Írlandi dagana 6.–9. desember sl. Rússland átti áheyrnaraðild að fundinum.

Á fundinum lögðu ESB og Noregur fram tillögu um skiptingu aflaheimilda milli strandríkjanna fjögurra. Tillagan var algjörlega óraunhæf, fól í sér skref aftur á bak frá undanförnum fundum og olli íslenskum stjórnvöldum því miklum vonbrigðum. Í ljósi þess að ekki virtist mögulegt að ná samkomulagi um framtíðarstjórnun makrílveiðanna lagði Ísland til bráðabirgðalausn í því skyni að tryggja verndun stofnsins. Fólst hún í því að aðilar myndu virða ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) um leyfilegan heildarafla ársins 2012, 639.000 tonn, og halda núverandi hlutdeild sinni í veiðunum. Hinir aðilarnir voru ekki reiðubúnir að fallast á tillöguna.    

Í ljósi framangreinds liggur fyrir að hlutdeild Íslands í makrílveiðunum á næsta ári verður óbreytt, um 16%, en aflaheimild Íslands mun taka mið af örlítilli lækkun á ráðgjöf ICES milli ára.  

Ísland beinir því til hinna strandríkjanna að taka tillit til þessa við kvótaákvarðanir sínar á makríl fyrir árið 2012. Sem kunnugt er tóku ESB og Noregur sér rúmlega 90% af ráðlögðum heildarafla ársins 2011 og sniðgengu þar með lögmæta hagsmuni strandríkjanna Íslands og Færeyja, svo og Rússlands. Kvótaákvörðun ESB og Noregs var ávísun á ofveiði úr makrílstofninum og gagnrýndu íslensk stjórnvöld hana harðlega. Þess er vænst að þessi saga endurtaki sig ekki.

Íslensk stjórnvöld leggja áfram ríka áherslu á að ná samkomulagi um stjórnun makrílveiðanna til að tryggja sjálfbærar veiðar og koma í veg fyrir frekari ofveiði úr stofninum. Ísland er því reiðubúið að halda áfram að leggja sitt af mörkum til að ná samkomulagi í samstarfi við hin strandríkin. Náist samkomulag aðila á næstunni verður framangreind ákvörðun tekin til endurskoðunar.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta