Ísland og Kína fagna 40 ára diplómatískum samskiptum
Þjóðhöfðingjar Íslands og Kína og utanríkisráðherrar ríkjanna skiptust á kveðjum í gær 8. desember á 40 ára afmæli stjórnmálasambands Íslands og Kína. Forseti Íslands sendi Hu Jintao forseta Kína kveðjur frá íslensku þjóðinni og fagnaði grósku í samskiptum ríkjanna. Sagði hann einstakt að svo náin samvinna og vinátta hefði tekist með ríkjunum tveimur sem jafningjum þrátt fyrir mikinn stærðarmun. Forseti Kína lagði í bréfi sínu áherslu á að kínversk-íslensk samskipti hefðu þróast jafnt og þétt á grundvelli gagnkvæmrar virðingar og sameiginlegs ávinnings síðan ríkin tvö tóku uppp stjórnmálasamband árið 1971. Líta bæri á 40 ára áfangann sem nýtt upphaf og tækifæri til að styðja við frekari samskipti milli leiðtoga þjóðanna tveggja sem og samskipti á hinum ýmsu stigum. Markmiðið væri að efla sameiginlegan skilning og traust og auka ábatasamt samstarf á sem flestum sviðum.
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra sagði í bréfi sínu til Yang Jiachi utanríkisráðherra Kína þessi tímamót vera til þess fallin að líta um öxl, til þeirra vaxandi samskipta sem einkenndu áratugina fjóra. Aukning hefði orðið á öllum sviðum hvort heldur litið væri til heimsókna háttsettra fulltrúa, menningarsamskipta, viðskipta eða efnahagssamvinnu. Það væri einlægur ásetningur Íslendinga að nýta tækifæri sem orðið gætu báðum ríkjum og þegnum þeirra til hagsbóta. Í sama streng tók Yang Jiachi utanríkisráðherra Kína sem sagði kínverska utanríkisráðuneytið reiðubúið til samvinnu til þess að efla heilbrigða og góða samvinnu Kína og Íslands.