Samningar undirritaðir við þrjú þekkingarsetur um starfsemi og þjónustu
Mennta- og menningarmálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir, hefur undirritað samninga við Háskólasetur Vestfjarða, Háskólafélag Suðurlands – Þekkingarnet á Suðurlandi og Þekkingarsetur Vestmannaeyja um starfsemi og þjónustu þessara aðila. Meginmarkmið samninganna er að bæta aðgengi íbúa að námi og stuðla að auknu samstarfi og samþættingu menntunar, rannsókna, fræðastarfs og atvinnuþróunar.
Föstudaginn 9. desember undirritaði mennta- og menningarmálaráðherra Katrín Jakobsdóttir samninga um starfsemi og þjónustu Háskólaseturs Vestfjarða, Háskólafélags Suðurlands – Þekkingarnet á Suðurlandi og Þekkingarsetur Vestmannaeyja. Af hálfu þekkingarsetranna undirrituðu samningana Halldór Halldórsson, Sigurður Sigursveinsson og Arnar Sigurmundsson.
Meginmarkmið samninganna er að bæta aðgengi íbúa að námi og stuðla að auknu samstarfi og samþættingu menntunar, rannsókna, fræðastarfs og atvinnuþróunar.
Setrunum er m.a. ætla að veita nemendum á framhaldsskóla- og háskólastigi þjónustu með miðlun fjarfundakennslu, fjarprófahaldi og með því að halda úti les- og vinnuaðstöðu fyrir fjarnema. Jafnframt að þróa námsleiðir og/eða námskeið á háskólastigi í samstarfi við háskóla, sérfræðinga og önnur þekkingarsetur á svæðinu.
Þessum þremur setrum er ætlað að hafa ákveðið frumkvæði að rannsóknar- og þróunarverkefnum sem byggja á sérstöðu í náttúrufari, atvinnulífi og/eða menningu svæðanna og eru til þess fallin að efla byggð.
Að lokum er gert ráð fyrir að setrin taki virkan þátt í faglegri umræðu um þróun rannsókna og háskólastarfs. Vinna með sérfræðingum og þekkingarsetrum á hvert á sínu svæði að þróun verkefna og stefnumótun háskóla- og rannsóknarstarfs.
Mennta- og menningarmálaráðuneytið er með þessum samningum að festa í sessi starfsemi þekkingarsetra á landsbyggðinni. Á grundvelli fjárframlaga til ólíkra setra er ábyrgð þeirra á starfseminni skilgreind þannig að hún fullnægja kröfum um fagmennsku og gæði.
Reglulegt samráð verður milli ráðuneytisins og setranna um að markmiðum samninganna sé framfylgt. Slík samskipti er í samræmi við stefnu mennta- og menningarmálaráðuneytis um auka upplýsingagjöf um þau verkefni sem það styður við.