Lesið í skóginn
Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra afhenti Ártúnsskóla viðurkenningu fyrir frábæra nýtingu grenndarskógar og þátttöku í verkefninu „Lesið í skóginn“.
,,Alþjóðlegt ár skóga" og nú senn á enda og Skógrækt ríkisins og aðrir aðstandendur verkefnisins ákváðu að veita Ártúnsskóla sérstaka viðurkenningu fyrir frábæra nýtingu grenndarskógar og þátttöku í Lesið í skóginn verkefninu. Það er samstarfsverkefni sem Skógrækt ríkisins, Skóla- og frístundasvið og Umhverfissvið Reykjavíkur ásamt Menntavísindasviði HÍ standa að. Ártúnsskóli fékk sinn grenndarskóg árið 2004 og er einn af öflugustu skólum landsins í skógartengdu útinámi. Skólinn fékk Íslensku menntaverðlaunin 2008 m.a. vegna þessa útinámsstarfs.
Útinám í Ártúnsskóla er tengt öllum námsgreinum skólans og skólastigum og er hluti af heilsustefnu hans. Grenndarskógurinn er í jaðri Elliðaárdalsins að norðanverðu og því stutt að fara í skóginn en það hefur veruleg áhrif á nýtingu hans í skólastarfi. Ártúnsskóli er fyrirmynd annarra grunnskóla í skógartengdu útinámi og margir koma til að kynna sér aðferðir og reynslu starfsfólks skóla.
Í nýju aðalnámskrá grunnskóla er fjallað um „sjálfbærni“ og hefur Ártúnsskóli einnig þar haft forystu um að nýta grenndarskóginn, sem efnisauðlind með margskonar hætti, m.a. sótt þangað jólatré. Í stað þess sem tekið er gróðursetja nemendur rauðgreni, sem fékkst af fræi af Oslóartrénu árið 2008. Margs konar efni er sótt í skóginn til nota í mismunandi námsgreinum. Ártúnsskóli hefur fyrstur skóla á landinu nýtt sér upplýsingar í kortagrunni og nytjaáætlun til að skipuleggja skólastarfið með fjölbreyttum hætti.
Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og Ragnar Þorsteinsson, sviðsstjóri Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, tóku við sitt hvoru rauðgreninu, sem ræktað var af fræi úr Oslóartrénu í lok athafnarinnar í Ártúnsskóla.