Ísland viðurkennir sjálfstæði Palestínu
Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra og Dr. Riad Malki, utanríkisráðherra Palestínu, staðfestu í dag með formlegum hætti upptöku stjórnmálasambands milli Íslands og Palestínu. Í orðsendingu sem utanríkisráðherra Íslands afhenti Dr. Malki kemur fram að samkvæmt ályktun Alþingis frá 29. nóvember 2011 hafi íslensk stjórnvöld frá og með 15. desember 2011 viðurkennt Palestínu sem sjálfstætt og fullvalda ríki innan landamæranna frá því fyrir sex daga stríðið árið 1967.
Á blaðamannafundi að lokinni viðurkenningunni sagði utanríkisráðherra að með henni standi íslensk stjórnvöld við fyrri yfirlýsingar sínar um stuðning Íslands við baráttu Palestínumanna fyrir sjálfstæði. Þakkaði utanríkisráðherra fyrir þann breiða stuðning sem Alþingi hafi sýnt málstað Palestínu og að miklu skipti að ályktun Alþingis hafi verið samþykkt mótatkvæðalaust. Hann sagði viðurkenningu á sjálfstæði Palestínu vera réttlætismál og ítrekaði jafnframt stuðning Íslands við aðild Palestínu að Sameinuðu Þjóðunum.
Dr. Malki sagði samband Íslands og Palestínu einstakt og bar íslenskum stjórnvöldum, Alþingi og íslensku þjóðinni þakkir forseta síns og palestínsku þjóðarinnar. Hann sagði ákvörðun Íslands miklu skipta þar sem nú væri Palestína viðurkennd í fyrsta sinn af ríki í vestur- og norðurhluta Evrópu. Hann vænti þess að þetta hefði áhrif á aðrar þjóðir sem vonandi feti í fótspor Íslands sem myndi hafa jákvæð áhrif á friðarumleitanir og öryggi í Mið-Austurlöndum. Þá sagði hann 130 ríki nú viðurkenna Palestínuríki sem sé mikil hvatning fyrir Palestínumenn að halda áfram uppbyggingu sjálfstæðs lýðræðisríkis. Dr. Malki sagði að Palestínumönnum muni ávallt verða minnisstætt að samþykkt Alþingis átti sér stað hinn 29. nóvember sem er alþjóðlegur samstöðudagur með palestínsku þjóðinni.