Mikilvægi ferðaþjónustunnar fer stöðugt vaxandi.
Ferðaneysla Íslendinga tók kröftuglega við sér á árinu 2011.
Hagstofa Íslands hefur gefið út Hagtíðindi um ferðaþjónustureikninga fyrir árin 2009–2011 en þar eru efnahagsleg áhrif ferðaþjónustu fyrir þjóðarbúskapinn metinn. Helstu hagtölur í ferðaþjónustu byggjast á niðurstöðum um útgjöld eða kaup erlendra ferðamanna á Íslandi, útgjöldum Íslendinga á ferð um eigið land og útgjöldum Íslendinga á leið til annarra landa og á ferðalagi erlendis.
Hagtíðindi um ferðaþjónustureikninga byggja á niðurstöðum um útgjöld eða kaup erlendra ferðamanna á Íslandi, útgjöldum Íslendinga á ferð um eigið land og útgjöldum Íslendinga á leið til annarra landa og á ferðalagi erlendis. Í reikningunum er ferðaþjónustan gerð upp samkvæmt alþjóðlegum staðli um ferðaþjónustureikninga.
Meðal þess sem kemur fram er að áhrif efnahagshrunsins árið 2008 á ferðahegðun Íslendinga innanlands og erlendis voru mikil á árunum 2009 og 2010. Tiltækar upplýsingar sýna að ferðaneysla Íslendinga tekur síðan kröftuglega við sér á árinu 2011.
Meðal helstu niðurstaðna má nefna:
- Landsframleiðsla frá framleiðsluhlið dróst saman um 7,9% árið 2009 en ferðaþjónusta nokkru minna, um 6,8%, sem skýrir 1,3% hærra hlutfall greinarinnar í vergri landsframleiðslu árið 2009.
- Heildarumsvif fyrirtækja í ferðaþjónustu árið 2009 námu ríflega 230 milljörðum króna eða sem svarar rúmlega 15% af vergri landsframleiðslu og er þá búið að áætla umsvif íslenskra ferða- og flugþjónustufyrirtækja vegna starfsemi utan Íslands.
- Heildarferðaneysla innanlands á árinu 2009 var rúmlega 184 milljarðar króna eða sem svarar rúmlega 12,3% af vergri landsframleiðslu.
- Ferðaneysla innanlands skiptist þannig að kaup erlendra ferðamanna voru rúmir 111 milljarðar, ferðaneysla heimila var um 64 milljarðar og kaup fyrirtækja og opinberra aðila námu um átta milljörðum króna.
- Um 61% af umsvifum innlendrar ferðaþjónustu á árinu 2009 má rekja til erlendra ferðamanna sem er tæplega 6% hærra hlutfall en á árinu 2008. Á árinu 2003 var þetta hlutfall 53% þannig að vægi þeirra í innanlandsferðaþjónustu hefur aukist nokkuð.
- Árið 2009 voru gjaldeyristekjur af erlendum ferðamönnum 158 milljarðar króna. Þar eru meðtalin umsvif íslenskra ferða- og flugþjónustufyrirtækja vegna starfsemi utan Íslands.
- Ferðaneysla erlendra ferðamanna innanlands nam rúmum 111 milljörðum króna en rúmir 46 milljarðar króna eru tekjur vegna ferðamanna utan Íslands.
- Árið 2009 er áætlað að tæplega 8.500 manns hafi starfað við ferðaþjónustu, um 5,2% af störfum alls.
- Vöru- og þjónustuskattar af ferðaþjónustu námu rúmum 13 milljörðum króna árið 2009.
- Gera má ráð fyrir að útgjöld erlendra ferðamanna hafi verið liðlega 117 milljarðar króna á árinu 2010 eða rúmlega 5% hærri en á árinu 2009.
- Á tímabilinu janúar til júní 2011 fjölgaði erlendum ferðamönnum sem fara frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar um tæplega 21%. Á sama tíma má gera ráð fyrir að útgjöld erlendra ferðamanna hér innanlands hafi aukist um tæp 16%.