Aðild Rússlands að WTO samþykkt
Í dag var aðild Rússlands að Alþjóðaviðskiptastofnuninni (WTO) samþykkt af aðildarríkjum stofnunarinnar á áttunda ráðherrafundi stofnunnarinnar í Genf. Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra og aðalsamningamaður Íslands gagnvart ESB, var viðstaddur undirritunina en hann hefur síðustu átta ár verið formaður í sérstökum vinnuhópi Rússlands og aðildarríkja WTO og stýrði aðildarviðræðunum til loka.
Aðild Rússlands markar tímamót í heimsviðskiptum en landið er mikilvægasta efnahagsveldi heims sem fram til þessa hefur staðið utan hins fjölþjóðlega viðskiptakerfis. Rússland þarf að fullgilda samninginn fyrir 15. júní 2012 en aðildin tekur gildi 30 dögum eftir fullgildingu hans. Við aðild mun rússneski markaðurinn opnast frekar, viðskiptaumhverfið verða fyrirsjáanlegra og réttaröryggi í viðskiptum með vöru og þjónustu aukast til muna. Jafnframt munu tollar lækka á mörgum vörum við innflutning til Rússlands.
Viðskipti Íslands og Rússlands byggja á gömlum merg og hefur Ísland einkum flutt út sjávarafurðir til Rússlands. Heildarútflutningur til Rússlands nam um 11,6 milljörðum króna árið 2010. Í tengslum við aðildarviðræður Rússlands að WTO gerði Ísland samkomulag við Rússland sem tryggði sérstaklega lægri tolla á mikilvægar íslenskar útflutningsvörur frá aðild, svo sem makríl, karfa og síld. Einnig var samið um lægri tolla á nokkrum iðnaðarvörum, meðal annars á lyfjavörum og búnaði og vörum til noktunar í matvælaframleiðslu.