Mikil þátttaka í símenntun á Íslandi
Ísland er í þriðja sæti 33 Evrópuþjóða þegar litið er á þátttöku 25-64 ára fólks í símenntun með 25,2% þátttöku en hún er 31,4% ef miðað er við breiðara aldursskeið, þ.e. fólk á aldrinum 16 til 64 ára.
Árið 2010 sóttu um 70.200 manns á aldrinum 16-74 ára sér einhvers konar fræðslu, annað hvort í skóla eða aðra fræðslu með leiðbeinanda eða um 31,4% landsmanna. Frá árinu 2003 hefur hlutfall landsmanna á aldrinum 16-74 ára, sem stundar einhvers konar menntun, heldur farið hækkandi. Hlutfallið var 28,3% árið 2003 en fór hæst í 33,1% árið 2006. Sé aðeins miðað við aldurinn 25-64 ára, sem er virkasti hópurinn á vinnumarkaði, sækir um fjórðungur landsmanna sér fræðslu, tæplega 41 þúsund manns.
Konur stunda símenntun í meira mæli en karlar
Hlutfall kvenna sem sækir sér fræðslu er hærra en hlutfall karla. Þannig sóttu 35,1% kvenna á aldrinum 16-74 ára eins hvers konar fræðslu, þar með taldar þær sem stunduðu nám í skóla árið 2010, en 27,8% karla. Konur eru fleiri en karlar meðal þeirra sem sækja námskeið, stunda nám í skóla og sækja sér annars konar fræðslu.
Hlutfall fólks á aldrinum 16-74 ára, sem sækir sér menntun, er hæst meðal háskólamenntaðra, 33,8% en lítið eitt lægri meðal þeirra sem aðeins hafa lokið grunnmenntun, 32,0%. Þá sækja 29,4% þeirra sem hafa lokið framhaldsskólamenntun einhvers konar fræðslu árið 2010. Lítill munur er á þátttöku kynjanna í símenntun meðal þeirra sem eingöngu hafa lokið grunnmenntun en konur sem hafa lokið framhaldsskóla eða háskóla stunda símenntun í mun meira mæli en karlar með sambærilega menntun.
Þátttaka í símenntun er mikil á Íslandi miðað við önnur Evrópulönd
Ísland er í þriðja sæti 33 Evrópuþjóða þegar litið er á þátttöku 25-64 ára í símenntun, með 25,2% þátttöku. Aðeins í Danmörku (32,8%) og Sviss (30,6%) er þátttakan meiri en á Íslandi. Meðaltal Evrópusambandslandanna 27 er 9,1%. Þátttaka í símenntun í Evrópu er meiri í norðvestur Evrópu en minni sunnar og austar í álfunni.
- Sjá nánar á vef Hagstofu Íslands.