Hoppa yfir valmynd
19. desember 2011 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Nýtt húsnæði Veðurstofu Íslands tekið í notkun

Bústaðavegur 7
Bústaðavegur 7

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra tók á föstudag formlega í notkun nýtt húsnæði Veðurstofu Íslands að Bústaðavegi 7 í Reykjavík. Er þá Veðurstofan sameinuð til húsa að Bústaðavegi 7 og 9, í stað nokkurra staða á höfuðborgarsvæðinu áður.

Á nýja staðnum er móttaka Veðurstofu Íslands til húsa auk upplýsinga- og tölvukerfa, skrifstofu og skjalasafns en Veðurstofan er sú stofnun á Íslandi sem safnar einna mestum gögnum um náttúrufar í landinu. Þá er hlutverk hennar í náttúruvá afar mikilvægt.

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra.Í ávarpi sínu gerði umhverfisráðherra þetta hlutverk hennar að umtalsefni og hversu miklu máli fumlaus viðbrögð Veðurstofunnar hafa skipt, t.a.m. fyrir alþjóðaflug í eldgosum undanfarinna ára.

Lengi hefur staðið til að leysa húsnæðisvanda stofnunarinnar en auk húsnæðis sem tekið var í notkun 1973, hefur stofnunin fram til þessa haft starfsaðstöðu á fleiri en einum stað á höfuðborgarsvæðinu.

Við opnunina ræddi forstjóri Veðurstofunnar, Árni Snorrason, um slagkraft stofnunarinnar á sviði vöktunar og rannsókna. Ísland varð fullgildur aðili að ECMWF, reiknimiðstöð evrópskra veðurstofa, í mars sl. og opnaðist með því aðgangur að miklu magni gagna sem nýtast til rannsókna og stórbættrar veðurþjónustu.

Veðurstofan er talin vera ein fremsta stofnun í heiminum á sviði eldfjallavöktunar. Þrjár varanlegar stöður, sem nýlega hafa verið mannaðar, tengjast því hlutverki stofnunarinnar beint. Rannsóknarverkefni, sem sérfræðingar Veðurstofunnar leiða, hafa ennfremur hlotið styrki sem fjármagna meðal annars fjögur doktorsverkefni á þessu sviði. Þá er þess vænst að Veðurstofan geti hafið á næsta ári heildarhættumat á íslenskum eldfjöllum sem mun tengjast vinnu við erlendu verkefnin.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta