Sleppingar á lifandi lúðu
20.12.2011
Nr. 66/2011
Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur skrifað undir reglugerð um bann við lúðuveiðum. Áður höfðu beinar lúðuveiðar með haukalóð verið bannaðar með reglugerð 477/2011 sem gefin var út síðastliðið vor. Með almennu banni á lúðuveiðum eru sjómenn skyldaðir til að sleppa í sjóinn aftur lífvænlegri lúðu en aflaverðmæti þeirrar lúðu sem kemur að landi rennur til rannsókna samkvæmt ákvæðum laga nr. 37/1992. Líkt og bann við veiðum með haukalóð tekur bann við almennum lúðuveiðum gildi um áramót.
Friðun lúðunnar er tilkomin vegna tillögu Hafrannsóknastofnunarinnar sem hefur um langt árabil bent á slæmt ástand stofnsins. Gögn stofnunarinnar benda til að lúðustofninn hafi um langt skeið farið minnkandi. Heildarlúðuafli á Íslandsmiðum fór upp í allt að 8000 tonn í byrjun 20. aldar en veiðin var þá nær eingöngu stunduð af erlendum skipum. Fyrstu árin eftir stækkun efnahagslögsögunnar í 200 sjómílur var lúðuaflinn að jafnaði um 2000 tonn en hefur farið minnkandi og var árið 1997 kominn niður í rúm 500 tonn. Lúðuveiðar hafa aukist lítillega á allra síðustu árum vegna aukinnar sóknar í stofninn með línuveiðum. Þar er annars vegar um að ræða aukna sókn í línuveiðar á blálöngu og löngu þar sem lúða kemur sem meðafli og hins vegar beina sókn í lúðu með haukalóð. Að öðru leyti hefur lúðuafli farið minnkandi sem meðafli.
Í framhaldi af reglugerð sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis um bann við lúðuveiðum með haukalóð ákvað ráðuneytið að beina því til Hafrannsóknastofnunarinnar að gera tillögur um frekari aðgerðir til verndar lúðunni. Stofnunin hélt í framhaldi af því fundi með skipstjórnarmönnum þar sem undirtektir við því að sleppa lifandi lúðu voru almennt jákvæðar. Í Kanada og Bandaríkjunum hafa verið gerðar athuganir á lífslíkum lúðu sem sleppt hefur verið eftir að hafa veiðst í vörpu, net eða á öngul. Lífslíkur slíkra fiska eru allgóðar og betri eftir því sem fiskurinn er stærri.
Í reglugerð um bann við veiðum á lúðu er í 2. gr. kveðið á um að við línuveiðar skuli sleppa lúðu með því að skera á taum línunnar. Við handfæra- og sjóstangaveiðar skal varfærnislega losa lúðuna af krókum eða skera á lykkju slóðans áður en lúða kemur um borð. Þá skal við botnvörpuveiðar koma fyrir rist þar sem fiski er hleypt í móttöku en þannig má koma í veg fyrir að stórlúða berist í móttöku skips. Sleppingar á lifandi sjávarfiski er nýmæli í fiskveiðistjórnun á Íslandsmiðum.
Lúðan er stærsti beinfiskur á Íslandsmiðum og getur stærst orðið á fimmta metra að lengd. Hún er botnfiskur sem þvælist þó um allan sjó. Lúða nær kynþroska við 8-10 ára aldur, en hún getur orðið allt að 50 ára gömul.
Ástand lúðustofnsins kallar á samstillt átak. Í því treysta stjórnvöld á ábyrgð sjómanna og útgerða en öll verndun fiskimiða við landið er komin undir samvinnu og samstöðu greinarinnar.
Hér að neðan má nálgast greinargerð Hafrannsóknastofnunarinnar og umræddar reglugerðir: