Hoppa yfir valmynd
21. desember 2011 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Staðgreiðsluhlutfall tekjuskatts og útsvars og persónuafsláttur fyrir árið 2012

Fréttatilkynning nr. 9/2011

Lögum samkvæmt auglýsir fjármálaráðuneytið árlega staðgreiðsluhlutfall opinberra gjalda fyrir komandi ár. Staðgreiðsluhlutfall er samtala af tekjuskatthlutfalli samkvæmt lögum um tekjuskatt, og meðalhlutfalli útsvars samkvæmt ákvörðunum sveitarfélaga á grundvelli laga um tekjustofna sveitarfélaga. Helstu niðurstöður um niðurstöður um útsvarshlutföll sveitafélaga og persónuafslátt eru þessar:

  • Meðalútsvarshlutfall sveitarfélaga verður 14,44% á nýju ári, 0,03 prósentustigum hærra en á síðasta ári, sem stafar fyrst og fremst af hækkun útsvars í Reykjavík.
  • 67 af 75 sveitarfélögum leggja á hámarksútsvar en tvö sveitarfélög leggja á lágmarks­útsvar.
  • Staðgreiðsluhlutfall tekjuskatts og útsvars verður í þremur þrepum; 37,34%, 40,24%  og 46,24%.
  • Mánaðarleg tekjumiðunarmörk þrepa verða þannig að af mánaðarlegum tekjum yfir 230.000 kr. er greitt í öðru þrepi og af tekjum yfir 704.367 kr. er greitt í þriðja þrepi.
  • Persónuafsláttur hvers einstaklings hækkar í samræmi við vísitölu neysluverðs á síðustu tólf mánuðum í desember, eða um 5,3%, og verður 46.532 krónur á mánuði. Skattleysismörk á mánuði verða 129.810 kr. að teknu tilliti til 4% lögbundinnar iðgjaldsgreiðslu launþega í lífeyrissjóð.

Um áramótin hækka fjárhæðarmörk tekjuskattsstofns, þ.e. mörkin milli skattþrepa. Mörk annars þreps hækka um 9,8% en þriðja þreps um 3,5%.

Staðgreiðsluhlutfall ársins 2012

Tekjuskattur er lagður á í þremur þrepum eins og áður. Þrepin eru þannig að af fyrstu 2.760.000 kr. árstekjum einstaklings (þ.e. 230.000 kr. á mánuði) er reiknaður 22,9% skattur. Af næstu 5.692.400 kr. (474.367 kr. á mánuði) er reiknaður 25,8% skattur og síðan í þriðja þrepi 31,8% skattur af árstekjum umfram 8.452.400 kr. (704.367 kr. á mánuði) hjá einstaklingi. Sem fyrr segir hækka tekjuviðmiðunarmörkin milli ára um 9,8% í öðru þrepinu en um 3,5% í þriðja þrepinu.

Meðalútsvar á árinu 2012 verður samkvæmt fyrirliggjandi ákvörðunum sveitarfélaga 14,44% í stað 14,41% á árinu 2011. Staðgreiðsluhlutfall ársins 2012 verður þríþætt eftir fjárhæð tekna, þ.e. 37,34% á tekjur í fyrsta þrepi, 40,24% á tekjur í öðru þrepi og síðan 46,24% á tekjur í þriðja þrepi.

Sveitarfélögin geta samkvæmt lögum um tekjustofna sveitarfélaga ákveðið útsvar á bilinu 12,44% til 14,48%. Af 75 sveitarfélögum leggja 67 á hámarksútsvar, þar af nýtir eitt þeirra sérstakt 3% álag sem þýðir að útsvarshlutfallið verður 14,91%. Tvö sveitarfélög leggja á lágmarksútsvar. Eitt sveitarfélag lækkar en tvö hækka.

Heimilt er að skattleggja hluta tekna maka í miðþrepi í stað efsta þreps hafi tekjulægri makinn ekki nýtt miðþrepið að fullu, þó að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Þegar sýnt þykir að heimild til slíkrar millifærslu hafi skapast geta samskattaðir aðilar óskað eftir endurreikningi á þeirri staðgreiðslu sem innt hefur verið af hendi og jafnframt endurgreiðslu hennar reynist staðgreiðslan of há. Slík endurgreiðsla getur þó ekki komið til fyrr en á síðasta ársfjórðungi og aldrei numið lægri fjárhæð en 50 þ.kr. eða hærri fjárhæð en 100 þ.kr.

Persónuafsláttur og skattleysismörk

Persónuafsláttur hvers einstaklings verður 558.385 krónur fyrir árið í heild, eða 46.532 krónur á mánuði.

Skattleysismörk, sem eru 123.417 kr. á mánuði á árinu 2011 verða 129.810 kr. á mánuði frá og með 1. janúar 2012 (að teknu tilliti til 4% lífeyrissjóðsiðgjalds). Hækkunin er 5,2%.

Hér má lesa yfirlitstöflu yfir útsvarshlutföll sveitarfélaga 2011 og 2012

Nánari upplýsingar veitir Rósa Björk Brynjólfsdóttir, upplýsingafulltrúi fjármálaráðuneytisins, [email protected], gsm; 824-6743


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta