Hoppa yfir valmynd
22. desember 2011 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Úthlutun ársins 2008

Samspil náttúruverndar og ferðamennsku í Vatnajökulsþjóðgarði.

Arnþór Gunnarsson, sagnfræðingur og mastersnemi, kr. 500.000,-
Í lögum um stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs segir að markmiðið með stofnun þjóðgarðsins sé ,,að vernda landslag, lífríki, jarðmyndanir og menningarminjar svæðisins og gefa almenningi kost á að njóta náttúru þess og sögu.” Á hinn bóginn er ljóst að meðal heimamanna á þeim fjórum svæðum sem að þjóðgarðinum liggja, sem og ferðaþjónustuaðila víða um land, er almennur vilji til þess að þjóðgarðurinn verði lyftistöng fyrir ferðaþjónustu. Markmið verkefnisins er að greina annars vegar viðhorf og áherslur ríkisvaldsins og hagsmunaaðila á sviði náttúruverndar og hins vegar viðhorf og áherslur heimamanna, einkum á Suðursvæði og Norðursvæði. Ætlunin er að rannsóknin auki skilning og þekkingu á þeim ólíku viðhorfum sem uppi eru varðandi stofnun og skipulag þjóðgarðsins.

Framvinda eldgoss í Öræfajökli 1362.

Dr. Ármann Höskuldsson við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, kr. 400.000,-
Markmiðið er að rekja hvernig eldgosið 1362 gekk fyrir sig. Meginmarkmið rannsóknarinnar er að gera alhliða úttekt á þessu stærsta sprengigosi Íslandssögunnar og athuga hvernig gosefnin dreifðust á landi. Til þess munu verða framkvæmdar athuganir og mælingar á gjóskulaginu frá 1362 á vettvangi og á rannsóknarstofu til þess að fá fram nákvæmar afleidd ferli s.s. jökulhlaup og umhverfis- og veðurfarsáhrif gossins.

Steingerðar gróðurleifar úr ísaldarlögum Svínafells.

Friðgeir Grímsson, steingervingafræðingur, kr. 600.000,-
Verkefnið felur í sér ítarlega rannsókn á steingerðum gróðurleifum úr ísaldarlögum Svínafells í Öræfum. Áætlað er að lýsa og greina plöntusteingervinga, bæði stórgervinga (laufblöð, aldin, fræ) og smágervinga (frjó og gró), bera þá saman við núlifandi og útdauðar plöntutegundir á norðurhveli jarðar og fá þannig vitneskju um uppruna tegunda, útbreiðsluhætti þeirra, svo og þróun gróðurfars og loftslagsbreytinga sem urðu á Íslandi þegar setlögin í Svínafelli mynduðust. Rannsóknin í Svínafelli er hluti af stærra verkefni sem unnið er að á landsvísu.

Kláfur á Breiðá.

Gísli S. Jónsson og Gunnar Sigurjónsson, bændur í Öræfum, kr. 440.000,-
Verkefnið felur í sér að koma upp kláf yfir Breiðá á Breiðamerkursandi. Kláfur sá er Helgi Björnsson smíðaði árið 1973 tók af í vatnavöxtum haustið 2002 en hann auðveldaði mjög þeim bræðrum á Kvískerjum að komast yfir í Breiðamerkurfjall þar sem þeir hafa stundað náttúrurannsóknir og jöklamælingar um langt árabil og gera enn. Upphafleg ástæða þess að ráðist var í smíði kláfferju yfir Breiðá er að Geoffrey S. Bolton jarðfræðingur og David aðstoðarmaður hans komu að Kvískerjum í desember 1972 þeirra erinda að ganga frá rannsóknarstöð við sporð Breiðamerkurjökuls. Stöðina þurfti síðan að vakta með viku millibili frá í desember fram á næsta vor. Það verk önnuðust Kvískerjabræður.

Tengsl loftslags- og jöklabreytinga suðaustan í Vatnajökli.

Hrafnhildur Hannesdóttir, jarðfræðingur og doktorsnemi, kr. 500.000,-
Skriðjöklar í Austur-Skaftafellsýslu eru á hlýjasta og úrkomumesta svæði landsins, bregðast hratt við breytingum í afkomu og velta í búskap er með því mesta sem gerist á jörðinni. Hvergi hefur sambúð manns og jökuls verið eins náin. Saga jöklabreytinga á fyrri öldum er þar vel skráð, þekking á landslagi undir jöklunum góð og aðstæður því einstakar til rannsókna á viðbrögðum jökla við loftslagsbreytingum. Könnun á viðbrögðum jökla við loftslagsbreytingum er mikilvæg í hnattrænu tilliti og aðstæður á rannsóknarsvæðinu góðar til slíkra rannsókna. Rannsóknirnar eru liður í að auka þekkingu á jöklasögu svæðisins og upplýsingar sem aflað verður munu m.a. nýtast vel við skipulag landnýtingar á svæðinu sem og fræðslutengdrar starfssemi innan Vatnajökulsþjóðgarðs.

Landnám smádýra í jökulskerjum.

María Ingimarsdóttir líffræðingur og doktorsnemi, kr. 550.000,-
Helstu markmið rannsóknarinnar eru að ákvarða þær breytingar sem verða á tegundasamsetningu, þéttleika og fjölbreytni smádýra í og á jarðvegi við framvindu á landi sem kemur undan jökli og við hlýnandi veðurfar. Svo og að ákvarða hvort og þá að hvaða leyti jökull hindrar landnám smádýra á nýju landi. Stærsti hluti rannsóknarinnar fer fram á Breiðamerkurjökli og í jökulskerjum þar. Doktorsverkefnið er þáttur í stærri rannsókn á jökulskerjum og áhrifum hlýnandi loftslags. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta