Vímuvarnir og réttur barna
Virðum rétt barna til lífs án neikvæðra afleiðinga áfengis- og vímuefnaneyslu segir í yfirlýsingu sem fulltrúar samstarfsráðs um forvarnir afhentu Guðbjarti Hannessyni velferðarráðherra í gær sem þakklætisvott fyrir öflugan stuðning hans við starf að forvörnum og þátttöku í viku 43, árlegri vímuvarnaviku. Ráðherra segir þetta þarfan boðskap og mikilvæga áminningu fyrir jólin.
Samstarfsráð um forvarnir er samstarfsvettvangur íslenskra bindindisfélaga og annast ýmis verkefni á sviði forvarna gegn áfengis- og vímuefnaneyslu samkvæmt samstarfssamningi við velferðarráðuneytið sem undirritaður var í ágúst síðastliðnum. Markmið samningsins er að draga úr neyslu áfengis og annarra vímuefna og þeim skaða sem neysla þeirra veldur og er liður í því er að koma í veg fyrir að ungt fólk hefji neyslu vímugjafa.
Eitt mikilvægra verkefna sem samstarfsráðið kemur að er vímuvarnarvikan - vika 43 sem haldin er árlega. Í ár var athyglinni beint að rétti barna og ungmenna til vímulauss lífs og verndun þeirra gegn neikvæðum áhrifum neyslu áfengis og annarra vímuefna, eins og mælst er til í yfirlýsingu aðildarríkja Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar frá árinu 2001 og barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.
Það voru Guðni Björnsson og Árni Einarsson, forsvarsmenn samstarfsráðsins sem afhentu velferðarráðherra yfirlýsingu viku 43 í velferðarráðuneytinu í dag, undirritaða af fulltrúum þeirra 22 aðila sem tóku þátt í framkvæmd vikunnar. Þeir félagar ræddu um helstu verkefni sem unnið er að á vegum samstarfsráðsins og hvernig starfinu miðar. Þeir sögðu augljóst að góður árangur náist fyrst og fremst með breiðri samstöðu, víðtækri þátttöku frjálsra félagasamtaka og síðast en ekki síst með öflugum tilstyrk stjórnvalda. Þeir þökkuðu velferðarráðherra sérstaklega fyrir þann mikla áhuga sem hann sýndi starfi að forvörnum gegn áfengis- og vímuefnum og dyggilegan stuðning við þetta mikilvæga málefni.
Í yfirlýsingu viku 43 segir meðal annars: „Þing og ríkisstjórnir hafa miklu hlutverki að gegna við opinbera stefnumörkun og fjármögnun samfélagslegra verkefna. Almenna stefnu í áfengis- og vímuefnamálum þarf að byggja á lýðheilsusjónarmiðum, án afskipta frá viðskiptahagsmunum.“ Þar segir einnig: Ungt fólk endurspeglar almennar venjur og viðhorf samfélagsins. Af þeim sökum berum við öll ábyrgð sem fyrirmyndir og samfélagsþegnar og ber að hvetja til og styðja hvers kyns viðleitni til þess að skapa ungu fólki aðstæður og forsendur til vímulauss lífernis og virða rétt þeirra til lífs án neikvæðra afleiðinga áfengis- og vímuefnaneyslu.“
Velferðarráðherra sagðist afar þakklátur öllum þeim félagasamtökum og fjölda fólks sem væri reiðubúið að gefa af tíma sínum og vinnuþreki til þess að sinna forvarnarstarfi í þágu barna og ungmenna og þar með samfélagsins alls. Alvarlegar afleiðingar vímuefnaneyslu væru öllum ljósar og mikið í húfi þar sem oft gæti verið um heilsu fólks, velferð og jafnvel líf að tefla.