Heimsótti þjónustumiðstöð hælisleitenda í Reykjanesbæ
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra heimsótti í dag Reykjanesbæ og ræddi við starfsmenn sveitarfélagsins sem annast umsjón með þjónustumiðstöðina FIT við hælisleitendur. Einnig heimsótti hann miðstöðina og ræddi við hælisleitendur.
Í för með ráðherra voru Ragnhildur Hjaltadóttir ráðuneytisstjóri, Halla Gunnarsdóttir aðstoðarmaður og fulltrúar í nefnd ráðuneytisins sem nú vinnur að endurskoðun á málsmeðferð vegna hælisleitenda en Halla er formaður nefndarinnar.
Af hálfu Reykjanesbæjar tóku á móti hópnum þær Hjördís Árnadóttir, félagsmálastjóri Reykjanesbæjar, Hera Ósk Einarsdóttir, forstöðumaður stoðdeildar fjölskyldu- og félagsmáladeildar Reykjanesbæjar, og Iðunn Ingólfsdóttir, fulltrúi hælisleitenda, og kynntu þær tilhögun og umfang þjónustunnar.
Síðustu árin hafa hælisleitendur verið á bilinu 60 til 70 að jafnaði en sum árin þó færri eða milli 30 og 40. Reykjanesbær hefur frá árinu 2004 annast þessa þjónustu samkvæmt samningi við Útlendingstofnun. Hælisleitendur hafa verið 52 að tölu að undanförnu en tveir bættust við í dag.
Þjónusta við hælisleitendur er hliðstæð þjónustu við aðra íbúa sveitarfélagsins sé litið framhjá sérstöðu þeirra sem hælisleitendur. Þjónustan er einstaklingsmiðuð og felst meðal annars í að veita almennar upplýsingar, útvega læknisþjónustu, sinna félagsráðgjöf og stuðningi og útvega túlkun. Einnig að útvega sundkort, aðgang að síma, sundlaug, bókasafni, strætisvagnaþjónustu sveitarfélagsins, börnum er útveguð leikskóla- eða grunnskólavist og fullorðnir eiga kost á íslenskukennslu. Gistiheimilið FIT hýsir að mestu einstaklinga en fjölskyldum eru útvegaðar íbúðir ef þess er kostur.
Brýnt að hraða málsmeðferð
Fram kom í umræðum við fulltrúa Reykjanesbæjar að brýnt sé að styðja vel við bakið á hælisleitendum meðan þeir bíða úrlausnar, sýna þeim virðingu, að þeir beri ábyrgð á eigin lífi og hvetja þá til að vera virkir og forðast aðgerðarleysi. Einnig eru þeir hvattir til að leita sér atvinnu.
Ráðherra og fylgdarlið heimsóttu gistiheimilið FIT og ræddu við nokkra íbúa þar. Þeir luku lofsorði á umsjón og umhyggju starfsmanna félagsþjónustu Reykjanesbæjar og tjáðu þakklæti sitt í garð Íslendinga, einstaklinga sem og félagasamtaka, fyrir góðar móttökur. Þeir sögðu brýnt að stytta málsmeðferðartímann og eins sögðu þeir það munu auðvelda þeim atvinnuleit ef það gengi einfaldar og fljótlegar fyrir sig að fá íslenska kennitölu.