Makrílveiðar skapa liðlega 1000 störf og skila 25 milljörðum króna
Nr. 69/2011
Makrílveiðar skapa liðlega 1000 störf og skila 25 milljörðum króna
Makrílveiðar Íslendinga á árinu 2011 skiluðu þjóðarbúinu meira en 25 milljörðum króna og sköpuðu yfir 1000 ársverk á sjó og landi. Meirihluti makrílafla íslenskra skipa kom að landi á Austfjörðum eða um 55% af heildinni.
Atlantshafsmakríll hefur um aldir verið þekktur við Ísland og var hér í umtalsverðu magni á hlýskeiði um miðbik 20. aldar. Hrygningarstöðvar hans eru í hafinu norður af Bretlandseyjum, ná austur undir Noreg og hrygning makríls hefur verið staðfest í íslenskri lögsögu. Í sumargöngum leitar makríllinn í norður eftir æti og kemur þá í miklu magni inn í íslenska lögsögu.
Skipuleg makrílveiði í íslenskri lögsögu hófst fyrst á þessari öld og fór fyrst yfir þúsund tonn árið 2006. Síðan þá hefur hann aukist jafnt og þétt með vaxandi göngum makrílstofnins á Íslandsmið og varð á árinu 2011 um 156 þúsund tonn eða 16% af allri makrílveiði úr stofninum.
Til samanburðar þá er reiknað með að um 1,1 milljón tonna af makríl komi inn í íslensku lögsöguna eða um 23% af heildarstofninum og auki þyngd sína um nærri 60% í sumardvöl sinni við Ísland. Það er því hafið yfir allan vafa og vísindalega staðfest að fæðunám makríls hefur umtalsverð áhrif á lífríkið innan íslenskrar lögsögu.
Verulegur árangur hefur náðst í nýtingu makrílafla frá því að um 80% af aflanum fór til bræðslu fram til 2009. Á árinu 2011 er talið að yfir 90% af öllum afla fari til manneldis og staðan er sambærileg því sem best gerist meðal nágrannaþjóða. Þessu marki hefur verið náð með því að ráðstafa veiðiheimildum í markíl til mismunandi útgerða. Þannig hafa 72% farið til hefðbundinna uppsjávarskipa, 22% til frystiskipa en heimildum hefur einnig verið ráðstafað til ísfiskskipa og smábáta. Þá hafa strangar reglur um meðferð afla haft þau áhrif að nær allur veiddur makríll er unninn til manneldis en afskurður, hausar og slóg fara til bræðslu. Veiðiheimildir í makríl skiptast í ár milli 100 íslenskra fiskiskipa.
Sem dæmi um þá atvinnusköpun sem fylgir makrílveiðunum nú má nefna að hjá einni vinnslustöð voru unnin 7000 tonn af makríl í landvinnslu sem gaf um 270 milljónir í launagreiðslur. Hafi meðallaun verið um 500 þúsund má áætla að 7000 tonn hafi hér skapað 45 ársverk auk afleiddra starfa í greininni. Í heildina tekið þá er reiknað með að makrílveiðar hafi skapað 200 bein störf á sjó og jafn mörg í landi. Afleidd störf eru síðan talin vera um 600 þannig að ársverkin eru samtals talin vera um 1000. Til samanburðar má t.d. nefna að samanlagt eru um 900 störf í álverum Alcoa og Alcan í Straumsvík og á Reyðarfirði.
Á liðnu ári var makríl landað í 28 höfnum en nærri 80% þess afla kom að landi í fimm höfnum sem eru í Reykjavík, á Vopnafirði, Neskaupstað, Eskifirði og í Vestmannaeyjum. Á Austfjörðum kom að landi 55% alls makrílafla , 23% í Vestmannaeyjum og um 8400 tonn eða um 5% komu að landi á Vesturlandi, Vestfjörðum og Norðurlandi.
25 milljarða verðmæti makrílsins jafngildir um 5% af öllum útflutningstekjum Íslands og er jafngildi þess sem þjóðin ver árlega til innflutnings matvæla, svo dæmi sé tekið.