Hoppa yfir valmynd
10. janúar 2012 Matvælaráðuneytið

Styrkir til að efla ferðaþjónustu á Grænlandi, Íslandi og í Færeyjum

Merki NATA
Merki NATA

Auglýst hefur verið eftir styrkumsóknum frá NATA, samstarfssamningi Íslands, Færeyja og Grænlands á sviði ferðamála. Í boði eru tvenns konar styrkir; Annars vegar styrkir til ákveðinna verkefna í ferðaþjónustu og hins vegar ferðastyrkir, t.d. vegna skólahópa, íþróttahópa eða menningarverkefna.

NATA er samstarfssamningur milli Íslands, Færeyja og Grænlands á sviði ferðamála. Umsóknarfrestur um NATA styrki er til 13. febrúar.

Styrkir til verkefna í ferðaþjónustu
Allir sem starfa að eflingu ferðaþjónustu á milli landanna þriggja geta sótt um styrk að hámarki 100.000 danskar krónur, eða að hámarki 50% þeirra kostnaðarliða sem styrktir eru. Skulu umsóknir fela í sér samstarf milli einstaklinga, stofnana eða fyrirtækja í tveimur af löndunum þremur hið minnsta. Ekki eru veittir styrkir vegna launakostnaðar, ráðgjafar, útgáfu efnis eða vefsíðugerðar.

Sækja má um aðstoð á eftirfarandi sviðum ferðaþjónustu.

  • Til markaðssetningar.
  • Til nýsköpunar- og – vöruþróunar.
  • Í kynnisferðir á milli ferðaþjónustufyrirtækja.
  • Til gæða- og umhverfismála innan ferðaþjónustunnar.

Við mat á umsóknum verður tekið tillit til eftirfarandi þátta:

  • Verkefnishugmyndar og gæða umsóknarinnar. Ófullgerðar umsóknir verða ekki teknar til greina.
  • Nýnæmis og nýsköpunargildis verkefnisins
  • Markaðstengingar
  • Kostnaðaráætlunar og annarrar fjármögnunar
  • Samfélagslegs gildis

Styrkir vegna kynnis- og námsferða
Eitt af markmiðum samstarfssamnings um ferðamál á milli Íslands, Grænlands og Færeyja er að auka samskipti og fjölga heimsóknum á milli landanna þriggja. Því er stefnt að því að ráðstafa 25% af samningnum í slíka styrki. Ferðaþjónustuverkefni eru þó enn sem fyrr þungamiðjan í samningnum.

Hér með eru auglýstir ferðastyrkir til þeirra sem vinna að samstarfsverkefnum sem varða tvö af löndunum þremur hið minnsta. Styrkjunum er einvörðungu ætlað að standa straum af ferðakostnaði, ekki gistingu eða uppihaldi. Hámarksstyrkur á hvern einstakling er  1.000 danskar krónur vegna ferðalaga milli Íslands og Grænlands annars vegar og Íslands og Færeyja hins vegar. Heildarstyrkur getur aldrei numið meira en 25% ferðakostnaðar. Samskipti skóla - árganga, bekkja - ganga að öðru jöfnu fyrir við mat á umsóknum.

Sækja má um styrk til kynnis- og námsferða eftirtaldra:

  • Skóla
  • Íþróttahópa
  • Tónlistarhópa
  • Annars menningarsamstarfs

Við mat á umsóknum verður tekið tillit til eftirfarandi atriða:

  • Verkefnishugmynd og gæði umsóknar. Ófullgerðar umsóknir verða ekki teknar til greina.
  • Tilgangur ferðar
  • Gagnkvæmni og tengslamyndun
  • Kostnaðaráætlun, fjármögnun

Umsóknareyðyblöð og skilafrestur
Lokafrestur til að skila umsókn er 13. febrúar 2012. Umsóknir eða fylgigögn sem berast eftir þann tíma verða ekki tekin gild. Svör við umsóknum verða send umsækjendum eigi síðar en 30. mars næstkomandi.

Nánari upplýsingar og upplýsingaeyðublöð má fá á heimasíðu Ferðamálastofu.

 

 

           

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta