Mennta- og menningarmálaráðherra fundar með Íþróttasambandi Íslands
Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, hélt árlegan samráðsfund ráðuneytisins með ÍSÍ og sérsamböndum þess 9. janúar sl.
Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, hélt árlegan samráðsfund ráðuneytisins með ÍSÍ og sérsamböndum þess 9. janúar sl. Eftir inngangsorð ráðherra reifaði Ólafur Rafnsson, forseti ÍSÍ, stöðu íþróttamála frá sjónarhorni sambandsins. Að því loknu voru umræður um málefni sérsambanda innan ÍSÍ, starfsumhverfi þeirra og hlutverk. Einnig voru á dagskrá umræður um kjarnastarfsemi íþróttahreyfingarinnar, forvarnargildi almenningsíþrótta, afreks- og alþjóðasamstarf sérsambandanna. Þá var rætt hvernig fjárhagserfiðleikar undanfarinna ára hafa haft slæm áhrif á allt starfsumhverfi þeirra og atgerfisflótta afreksíþróttafólks. Umræður urðu einnig um nýja stefnumótun ráðuneytisins í íþróttamálum. Í máli fundarmanna kom fram ánægja með hana og var ráðherra hvattur til þess að fylgja henni vel eftir svo markmið hennar geti náðst.
Mennta- og menningarmálaráðuneyti heldur árlega fundi af þessu tagi með ýmsum aðilum, sem starfa á málefnasviðum þess. Á fundunum gefst tækifæri til að skiptast á skoðunum og ræða milliliðlaust við ráðherra um þau málefni, sem eru efst á baugi hverju sinni.