Hoppa yfir valmynd
17. janúar 2012 Heilbrigðisráðuneytið

Upplýsingar til kvenna með P.I.P. brjóstafyllingar

Tilkynning frá velferðarráðuneytinu, embætti landlæknis og Lyfjastofnun

Velferðarráðuneytið beinir eftirfarandi upplýsingum til kvenna með P.I.P. brjóstafyllingar í tengslum við ákvörðun stjórnvalda um að bjóða konunum ómskoðun til að kanna ástand púðanna og brottnám þeirra leiði skoðun í ljós að þeir leki. 

Eins og fram kom í tilkynningu velferðarráðuneytisins 10. janúar síðastliðinn verður umræddum konum sent bréf á næstu dögum um fyrirkomulag ómskoðananna, mótttöku tímapantana og öðrum nauðsynlegum upplýsingum. Ráðuneytið vinnur að því að ganga frá öllum þáttum sem þurfa að liggja fyrir varðandi skipulag og framkvæmd ómskoðana áður en upplýsingabréf verður sent út.

Brjóstafyllingar frá franska fyrirtækinu P.I.P. (Poly Implant Prothese) hafa verið notaðar í aðgerðum við brjóstastækkanir í um 65 löndum víðsvegar um heiminn. Eins og fram er komið reyndust umræddar brjóstafyllingar franska fyrirtækisins sem verið höfðu á markaði undanfarinn áratug vera falsaðar þar sem í þeim var annars konar sílikonefni en það sem fyrirtækið hafði fengið gæðavottað með CE-gæðamerkingu.

Viðbrögð stjórnvalda byggast á fyrirliggjandi upplýsingum um P.I.P. brjóstafyllingar

Náið samstarf er milli heilbrigðisyfirvalda Evrópuþjóða og þar til bærra eftirlitsstofnana sem deila með sér öllum mikilvægum upplýsingum sem fram koma varðandi P.I.P. brjóstafyllingarnar og niðurstöðum rannsókna sem þegar hafa verið gerðar á mögulegum áhrifum þeirra á heilsufar.

Ráðleggingar íslenskra heilbrigðisyfirvalda og aðgerðir sem stjórnvöld hafa ákveðið að grípa til hér á landi vegna P.I.P. brjóstafyllinga byggjast á sömu upplýsingum og aðrar þjóðir hafa lagt til grundvallar sínum viðbrögðum og eru eftirfarandi:

  • Vísbendingar eru um að leki komi fram í hærra hlutfalli P.I.P. brjóstapúða en brjóstapúðum frá öðrum framleiðendum. Þetta hefur þó ekki verið staðfest.
  • Komi leki frá P.I.P. brjóstapúðum er meiri hætta á ertingu, bólgumyndun og óþægindum vegna þess en við leka frá öðrum brjóstapúðum.
  • Niðurstöður rannsókna sérfræðingahópa í Bretlandi og Frakklandi sem beinast að áhrifum P.I.P. fyllinga á heilsu kvenna benda hvorki til þess að fyllingarnar valdi aukinni hættu á krabbameini né að þær hafi eiturverkandi áhrif á líkamsvefi.

Viðbrögð stjórnvalda í löndum þar sem P.I.P. brjóstafyllingar hafa verið notaðar eru á ýmsa lund en eiga þó sammerkt að ráðlagt er að konur leiti til lækna og láti skoða ástand púðanna og jafnframt að þeir séu fjarðlægðir komi í ljós að þeir leki. Í nokkrum löndum hefur konum verið ráðlagt að láta fjarlægja púðana óháð því hvort þeir leka eða ekki. Annars ráðleggja heilbrigðisyfirvöld að hvert tilvik sé metið fyrir sig og mæla ekki með brottnámi brjósapúða nema niðurstaða ómskoðunar leiði í ljós að það sé nauðsynlegt. Er byggt á því að í langflestum tilfellum leiði aðgerð til meiri óþæginda fyrir konurnar en að vera með heilar brjóstafyllingar án fylgikvilla. Þessi afstaða kemur meðal annars fram hjá norskum, dönskum og sænskum heilbrigðisyfirvöldum.

Skýrsla sérfræðinga sem fjalla um P.I.P. brjóstafyllingar væntanleg í lok janúar

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur falið  sérfræðinganefndinni SCHENIHR (Committee on Emerging and Newly Identified Health Risks) að gera áhættumat á brjóstafyllingum frá franska framleiðandanum P.I.P. og er reiknað með því að skýrsla hópsins verði kynnt í lok janúar.

Íslensk stjórnvöld, heilbrigðisyfirvöld og eftirlitsstofnanir munu ef þörf krefur endurskoða aðgerðaáætlun vegna P.I.P. brjóstapúða sem kynntar voru 10. janúar síðastliðinn eftir því sem ástæða er til, komi fram nýjar upplýsingar um áhrif þeirra á heilsufar.

velferðarráðuneytið,

embætti landlæknis og Lyfjastofnun

17. janúar 2012

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta