Hoppa yfir valmynd
20. janúar 2012 Dómsmálaráðuneytið

Finnum leiðir til að bæta meðferð kynferðisbrota í réttarkerfinu

Það er okkar von að ráðstefnan verði til þess að efla enn frekar umræðu um kynferðisbrot á Íslandi. Hugsanlega finnum við leiðir til að breyta og bæta meðferð þeirra í réttarkerfinu, sagði Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra meðal annars þegar hann setti ráðstefnu um meðferð kynferðisbrota í réttarvörslukerfinu í dag. Þar var meðal annars fjallað um ýmsar hliðar á vernd barna fyrir kynferðislegri misneytingu, málsmeðferð, lagabreytingar og hlutverk ákæruvaldsins.

Kringum 200 manns sóttu ráðstefnu um meðferð kynferðisbrota í réttarvörslukerfinu.
Kringum 200 manns sóttu ráðstefnu um meðferð kynferðisbrota í réttarvörslukerfinu.

Kringum 200 manns sátu ráðstefnuna sem fram fór með fyrirlestrum, málstofum og umræðum og voru fyrirlesarar bæði innlendir og erlendir sérfræðingar. Innanríkisráðuneytið stóð að ráðstefnunni ásamt lagadeild Háskóla Íslands, Rannsóknastofnun Ármanns Snævarrs um fjölskyldumálefni og í samvinnu við Evrópuráðið. Á ráðstefnunni var leitast við að leiða saman sjónarmið fræðasamfélagsins, réttarvörslukerfisins og frjálsra félagasamtaka sem fjalla um málaflokkinn. Erindi fyrirlesara voru tekin upp og má sjá þau hér að neðan ásamt glærum þeirra.

Kringum 200 manns sátu ráðstefnu um meðferð kynferðisbrota.Í upphafi ræðu sinnar sagði Ögmundur Jónasson að þagað hefði verið yfir kynferðislegu ofbeldi um aldir og að ekki hefði alltaf verið brugðist vel við þegar umræðan hófst. Kynferðisofbeldi væri eflaust til úti í hinum stóra heimi, en ekki á litla Íslandi, þar sem nálægðin er mikil og við teljum okkur þekkja vel hvert til annars. Of oft var ráðist á sendiboðann, en sendiboðum áratuganna ber okkur að þakka sína baráttu, fyrir að rjúfa þögnina, þótt sannleikurinn hafi verið óþægilegur.

,,Í dag vitum við betur. Við vitum að kynferðislegt ofbeldi er ein stærsta ógn við líf og heilsu barna og kvenna á Íslandi í dag. Við vitum að tilvikin eru ekki teljandi á fingrum annarrar handar eða beggja. Þau ekki skipta þau tugum, heldur hundruðum á ári hverju. Aðeins hluti kynferðisbrotamála ratar inn á borð lögreglu og afar fá mál rata í gegnum allt réttarkerfið. Brotaþolarnir eru alltof margir og það sem enn verra er, ofbeldismennirnir eru alltof margir. Sem samfélag þurfum við að horfast í augu við veruleikann og reyna að skilja hvað það er í samfélagsgerðinni sem gerir að að verkum að allt þetta ofbeldi þrífst,” sagði ráðherrann ennfremur.

Í fyrsta hluta ráðstefnunnar var fjallað um kynferðisbrot gegn börnum í tengslum við sáttmála Evrópuráðsins um vernd barna gegn kynferðislegri misneytingu og kynferðislegri misnotkun. Íslensk stjórnvöld undirrituðu sáttmálann 4. febrúar 2008 og fullgilding stendur nú fyrir dyrum. Var sérstaklega fjallað um reglur Evrópuráðsins um barnvænt réttarumhverfi en þær voru útbúnar í tengslum við sáttmálann.

Í öðrum hlutanum var fjallað um meðferð nauðgunarmála í réttarkerfinu út frá þverfaglegu sjónarhorni. Er þessi hluti sjálfstætt framhald af viðamiklu samráði sem innanríkisráðuneytið hefur staðið fyrir um meðferð nauðgunarmála.

Að síðustu fór fram umræða í þremur málstofum með aðkomu fræðimanna, lögreglu, saksóknara, dómara, lögmanna og frjálsra félagasamtaka. Ein fjallaði um samspil barnaverndarkerfisins og refsivörslukerfisins; í annarri var rætt um rannsóknir og ákærur í nauðgunarmálum og í þeirri þriðju um trúverðugleika og sönnunarmat.

Fundarstjórar voru Ragnhildur Hjaltadóttir ráðuneytisstjóri og Karl Blöndal, aðstoðarritstjóri Morgunblaðsins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta