Spurt um viðhorf til sjálfbærrar neyslu og framleiðslu
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur sett af stað samráðsferli á netinu þar sem óskað er eftir áliti og upplýsingum frá almenningi um hvernig best megi stuðla að sjálfbærri neyslu, framleiðslu og iðnaði.
Samráðinu er meðal annars beint að opinberum vistvænum innkaupum og aðgerðum til að draga úr umhverfisáhrifum (vistspori) framleiðsluvara og fyrirtækja.
Markmiðið er margþætt. Í fyrsta lagi mun samráðið gagnast við stefnumótun til að tryggja umhverfisvænni vörur á Evrópumarkaði og samkeppnisforskot þeirra. Í öðru lagi við að stuðla að sjálfbærri neyslu, s.s. með því að auka eftirspurn eftir vistvænum vörum og þjónustu og að breyta neyslumynstri almennings. Hvorutveggja er forsenda þess að dragi úr auðlindanotkun og neikvæðum umhverfisáhrifum vegna neyslu okkar. Í þriðja lagi mun samráðið gagnast við stefnumótun sem ætlað er að hvetja til vistvænni framleiðsluhátta.
Þá er kallað eftir áliti almennings varðandi vistvæn opinber innkaup og hvort grípa skuli til lögbundinna eða valkvæðra aðgerða til að ýta undir sjálfbæra neyslu. Loks er kannað viðhorf til þess hvort og hvernig Framkvæmdastjórnin geti nýtt sér þá hugmyndafræði sem býr að baki útreikningum á vistspori (sem er mælikvarði á umhverfisáhrif) í því skyni að draga úr umhverfisáhrifum framleiðsluvara.
Endurskoðun umræddrar stefnu gæti leitt til breytinga á reglum Evrópusambandsins sem aftur hefðu áhrif á íslenskar reglur vegna EES samningsins.
Samráðið stendur til 3. apríl 2012.