Ný byggingarreglugerð undirrituð
Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra undirritaði í dag nýja byggingarreglugerð. Reglugerðin er sérlega yfirgripsmikil enda tekur hún til fjölda atriða sem snerta daglegt líf og aðbúnað almennings.
Um er að ræða heildarendurskoðun byggingarreglugerðar í kjölfar þess að ný lög um mannvirki voru samþykkt árið 2010. Ýmis nýmæli eru í nýju reglugerðinni, m.a. áhersla á svokallaða algilda hönnun og sjálfbærni í mannvirkjagerð auk fyrirferðarmikilla neytendaverndarákvæða.
Algild hönnun
Hugtakið algild hönnun lýsir nýrri hugmyndafræði við hönnun mannvirkja sem gerir ráð fyrir að þau séu þannig úr garði gerð að þau henti öllum. Þetta rímar við áherslur í lögum um mannvirki en í þeim er gerð sú krafa að fólk sem eigi við fötlun eða veikindi að stríða geti með öruggum hætti komist inn og út úr húsum, jafnvel við óvenjulegar aðstæður, svo sem í bruna. Þá á við hönnun að hafa í huga mismunandi þarfir og getu fólks með tilliti til sjónar og heyrnar. Þannig sé gætt að efnisvali og útfærslum sem og hljóðvist og birtuskilyrðum innan- og utanhúss.
Áætlað er að minnst tíu prósent íbúa landsins búi við hreyfihamlanir eða annars konar fötlun. Til viðbótar koma þeir sem hafa skerta hreyfigetu vegna aldurs og tímabundinna aðstæðna, t.d. vegna slysa, þungunar og vegna þess að þeir eru með börn í kerrum og barnavögnum. Eldri borgarar glíma margir hverjir við ýmiskonar hamlanir, svo sem slæma sjón, skerta heyrn og gigt en þessi ört stækkandi hópur er engu að síður oft við tiltölulega góða heilsu og vel ferðafær. Sérstök áhersla er á að tekið sé tillit til allra þessara þjóðfélagshópa við hönnun mannvirkja í nýrri byggingarreglugerð. Þetta mun einnig hafa í för með sér að fólk mun geta búið lengur í húsum sínum, hafi það hug á því.
Sjálfbærni
Eitt af markmiðum laga um mannvirki er að stuðla að vernd umhverfis með því að hafa sjálfbæra þróun að leiðarljósi við hönnun og gerð mannvirkja. Ákvæði um vernd umhverfis og sjálfbæra þróun fléttast því víða inn í nýja byggingarreglugerð. Gerðar eru auknar kröfur, t.d. um einangrun og um flokkun byggingarúrgangs. Lögð er áhersla á meiri endingu, betri nýtingu orku og að umhverfisáhrifum byggingarinnar sé haldið í lágmarki.Neytendavernd
Lögum um mannvirki er ekki aðeins ætlað að vernda líf og heilsu manna heldur líka verðmætar eignir þeirra með því að stuðla að endingu og hagkvæmni mannvirkja. Þannig eru hagsmunir hins almenna borgara sem neytanda meðal markmiða byggingarreglugerðarinnar.
Ný byggingarreglugerð gerir ráð fyrir og skilgreinir markvissara og samræmdara eftirliti í mannvirkjagerð en gilt hefur. Með auknu aðhaldi við mannvirkjagerð má auka líkurnar á því að ný hús uppfylli væntingar kaupenda og minnki líkur á göllum. Innleiðing gæðastjórnunarkerfa í starfsemi byggingarstjóra, hönnuða og iðnmeistara ber að sama brunni en ákvæði er snerta þessa þætti eiga þegar upp er staðið að leiða til sparnaðar og aukinna gæða.
Þá eru auknar öryggiskröfur í nýju reglugerðinni, ekki síst hvað varðar öryggi barna. Þannig eru hertar kröfur um öryggi stiga og handriða, hita neysluvatns, notkun glers í mannvirkjum, burðarþol, brunavarnir ofl. Sérstakur kafli er um hollustu, heilsu og umhverfi, s.s. varðandi raka í húsum sem þekkt er að getur leitt til mygluvandamála og rakaskemmda.
Fleira lýtur að neytendavernd, s.s. auknar kröfur um hljóðvist, s.s. í skólum þar sem börn dvelja og á sjúkrahúsum. Þá er ákvæði um handbók mannvirkis sem byggingarstjóri skal afhenda eiganda húsnæðis svo eitthvað sé nefnt.
Ný byggingarreglugerð tekur gildi við birtingu í Stjórnartíðindum. Byggingafulltrúum er þó heimilt til 1. janúar 2013 að gefa út byggingarleyfi að hluta til á grundvelli krafna eldri byggingarreglugerðar ef eftir því er sóst, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum sem og skilyrðum mannvirkjalaga.
Ný byggingarreglugerð með fyrirvara um birtingu í Stjórnartíðindum.