Hoppa yfir valmynd
31. janúar 2012 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Tvö svæði í Skerjafirði innan Kópavogs friðlýst

Frá undirritun friðlýsingarinnar í gær.
Frá undirritun friðlýsingarinnar í gær.

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra hefur staðfest friðlýsingu hluta Skerjafjarðar innan bæjarmarka Kópavogs með fjörum og grunnsævi. Um er að ræða tvö strandsvæði, annars vegar sem liggur sunnan byggðarinnar að Kópavogi og hins vegar norðan við sveitarfélagið að Fossvogi, samtals 62,6 hektarar.

Skerjafjarðarsvæðið í heild hefur alþjóðlegt verndargildi vegna farfuglategunda, svo sem rauðbrystings og margæsar, en þar er að finna lífríkar þangfjörur leirur og grunnsævi sem skapa undirstöðu fyrir afar fjölbreytt fuglalíf allan ársins hring. Einnig er svæðið mikilvægt vegna marhálms og sjávarfitjungs sem hafa takmarkaða útbreiðslu hér á landi, en marhálmur er ein aðal fæða margæsar.

Af þessum sökum er fræðslugildi svæðisins talið mikið enda aðgengi að því gott. Strandlengjan er vinsæl til útivistar og í Fossvogi eru iðkaðar siglingar og annað sjósport. Almenningi verður áfram heimilt að fara um svæðið að því tilskyldu að gengið sé vel og snyrtilega um það. Lausaganga hunda verður óheimil en almenn umferð smábáta er áfram heimil eins og verið hefur eftir hefðbundnum siglingarleiðum.

Umsjón og rekstur verndarsvæðisins verður í höndum Kópavogsbæjar og Náttúrufræðistofu Kópavogs í samræmi við samning bæjarfélagsins og Umhverfisstofnunar.

Friðlýsingin er í samræmi við náttúruverndaráætlun en svæðið hefur verið á náttúruminjaskrá frá árinu 1975. Þá byggir ákvörðun um friðlýsingu á alþjóðlegum samningum og samþykktum sem Ísland er aðili að auk ýmissa íslenskra laga og reglugerða er varða haf og strandir.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta