Hoppa yfir valmynd
31. janúar 2012 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Um yfirfærslu lána milli gömlu og nýju bankanna

Að gefnu tilefni vegna umræðu um mat á þeim eignum (útlánum) sem nýju bankarnir tóku við í október 2008, einkum í tengslum við nýútkomna skýrslu Hagfræðistofnunar Háskólans, vill fjármálaráðuneytið koma á framfæri eftirfarandi athugasemdum er varða samningagerð og mat eigna í tengslum við stofnsetningu nýju bankanna:

1.    Samkvæmt ákvörðunum FME á grundvelli Neyðarlaganna tóku nýju bankarnir þrír við innstæðuskuldbindingum hinna föllnu banka á Íslandi. Lögin kváðu á um að FME gæti „gegn mati“ ráðstafað eignum til nýju bankanna til að mæta þeim skuldbindingum. Þessar eignir voru meginhluti útlána til íslenskra aðila;  fyrirtækja, stofnana og einstaklinga. Í grófum dráttum var þetta rúmur fjórðungur af gamla bankakerfinu og taldi tugþúsundir lána af ýmsum toga.

2.    Á þessum tíma ríkti óvissa um afdrif íslenska hagkerfisins og allt mat á greiðslugetu lántakenda og verðmæti trygginga óvissu háð. FME réð Deloitte til að meta virði yfirfærðu lánanna. Því verkefni lauk í apríl 2009. Að mati Deloitte ríkti mikil óvissa um verðmæti lánanna og skilaði fyrirtækið því ekki eignamati í einni tölu heldur verðbili þar sem munur lægsta virðis og þess hæsta nam nokkur hundruð milljörðum króna.

3.    Á árinu 2009 var unnið af hálfu stjórnvalda að samningum um endanlegt virðismat á lánunum og stofnsetningu nýju bankanna. Innstæðuskuldbindingarnar sem nýju bankarnir höfðu tekið að sér námu um 1.440 ma.kr. Þær eignir sem þeir tóku yfir voru á endanum metnar á 1.760 ma.kr. og þurftu nýju bankarnir því að greiða þeim gömlu um 320 ma.kr. nettó, þ.e. mismuninn á eignavirðinu og yfirteknum innlánsskuldbindingum. Þannig urðu efnahagsreikningar nýju bankanna til, en gríðarlega mikilvægt var í því óvissuástandi sem ríkti að eignamatið væri varfærið.

4.    Of hátt eignamat hefði stefnt efnahag hinna nýstofnuðu banka og eiginfjárframlagi ríkissjóðs í hættu. Á endanum var því miðað við neðri mörk verðmats Deloitte. Í staðinn var gömlu bönkunum veitt hlutdeild í auknum verðmætum ef efnahagsþróun yrði hagstæðari en svartsýnni spár gerðu ráð fyrir. Ekki er ástæða til að fjalla nánar um útfærslurnar hér, en einungis tekið fram að lán til einstaklinga, þar með talið húsnæðislán, voru ekki hluti af þeim.

5.    Matið á lánunum var varfærið en bókfært virði þeirra hafði verið um 4.000 ma.kr. og var sem áður segir lækkað í 1.760 ma.kr. Heildarafföllin námu því um 55% að meðaltali. Sum lán voru metin án  affalla,  önnur með 100% afföllum, en flest einhvers staðar þar á milli.  Höfuðstóll lánanna var ekki lækkaður samfara matinu, því einfaldlega var verið að reyna að leggja mat á hversu líklegt gæti verið að þau greiddust til baka og einungis stærstu lánin voru metin hvert fyrir sig.

6.    Erlendu lánin voru vandmeðfarin, en þau námu um 2/3 af útlánunum. Í fjárhæðum talið var stór hluti þeirra til eignarhaldsfélaga sem stofnuð höfðu verið um kaup hlutabréfa eða annarra eigna, þar sem vitað var að greiðslugeta var eftir bankahrunið lítil eða engin og takmarkað verðmæti trygginga var fyrir hendi. Höfuðstóll lánanna hafði jafnframt hækkað verulega vegna hruns íslensku krónunnar. Hins vegar var ljóst að útflutningsfyrirtæki nutu á vissan hátt góðs af veikingu krónunnar og að lán til þeirra væru ekki eins viðkvæm fyrir áföllum í efnahagslífinu.

7.    Í skýrslu fjármálaráðherra til Alþingis um endurreisn bankakerfisins er vikið að þessu, einkum í ljósi þess að dómstólar höfðu eftir að samningum var lokið komist að því að gengistrygging töluverðs hluta lánanna hefði verið ólögmæt. Var því áleitin sú spurning hvers vegna ekki hefði verið gert ráð fyrir því í mati á virði lánanna, beðið með samninga eða gerður sérstakur fyrirvari vegna þess. Af þessum sökum er í skýrslunni farið  yfir þau rök sem voru fyrir því að gera það ekki.  Er þar m.a. tiltekið að vegna hins lága mats á heildareignum ættu „áföll“ vegna ógildingar gengistryggingar að rúmast innan þess sem nýju bankarnir ættu að þola. Miðað við stöðu bankanna í dag bendir margt til að þetta mat hafi verið rétt.

8.    Í opinberri umræðu hefur tiltekið orðalag í skýrslu fjármálaráðherra um þetta atriði verið gripið á lofti og nýtt til þess að véfengja nýútkomna skýrslu Hagfræðistofnunar Háskólans um svigrúm til afskrifta húsnæðislána. Í skýrslu ráðherrans segir í kafla 2.4.6.2.: „Um það leyti sem endanlega var gengið frá samningum við gömlu bankana heyrðust raddir um að gengistrygging lána kynni að vera ólögmæt.  Það atriði var á þeim tíma umdeilt meðal lögfræðinga og algjörlega óraunhæft að meðhöndla öll slík lán sem ólögmæt í samningunum. Bent var á að öll gengistryggð lán hefðu verið afskrifuð um meira en helming við yfirfærslu þeirra til nýju bankanna, engin greining hefði farið fram á lánsskilmálum m.t.t. ólögmætis og þótt svo færi að hluti þeirra yrði metinn ógildur myndu ákvæði 18. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 leiða til þess að upphaflegur höfuðstóll yrði framreiknaður með óverðtryggðum vöxtum“.

9.    Í textanum er verið að lýsa þeim sjónarmiðum sem þurfti að taka tillit til við samningsgerðina. Augljóslega er verið að vekja athygli á þeirri staðreynd að  útlánin voru að meðaltali metin minna virði en helmingur af bókfærðu virði. Sum þeirra voru metin lægra og önnur hærra. Það er rangt að álykta að hvert og eitt lán hafi verið afskrifað um sem nemur meira en 50% af bókfærðu virði. Eins og fram kemur undir lið 4 hér að framan er verið að vísa til þess að yfirfærð útlánasöfn voru að meðaltali afskrifuð um meira en 50% (hvort sem þau voru í erlendri mynt eða íslenskum krónum). Hvergi er til, svo vitað sé, flokkun útlána í gengistryggð lán og krónulán með útreiknuðum afföllum við yfirfærsluna í hvorum flokki fyrir sig. Húsnæðislán eru talin tryggari en önnur útlán. Það gefur því augaleið að verðgildi þeirra var hlutfallslega hærra en meðaltalið sem áður er lýst, en í útlánasafninu voru meðal annars stór útlán til eignarhaldsfélaga þar sem meta varð afskriftarþörfina 100%, þ.e. að ekkert fengist upp í lánið.

10.    Rétt er að geta þess að húsnæðislán Kaupþings voru ekki yfirfærð til Arion banka í október 2008 þar sem þau voru þá veðsett Seðlabanka Íslands. Um þau lán var því ekki fjallað í nefndum samningum. Um  kaup/yfirfærslu á þeim útlánasöfnum var samið síðar eins og nýlega hefur komið fram í fjölmiðlum.

Ekki er í þessu samhengi tekin nein afstaða til hins svokallaða svigrúms bankanna við skuldaafskriftir húsnæðislána. Samningarnir sem gerðir voru höfðu enda engin lagaleg áhrif á stöðu skuldara eða bankanna sem lánveitenda. Nauðsynlegt er hins vegar að umræðan um skuldaafskriftir þessar sé á réttum forsendum.


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta