Hoppa yfir valmynd
1. febrúar 2012 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Innanríkisráðherra mælti fyrir fjarskiptaáætlun á Alþingi

Tillögur til þingsályktunar um fjögurra og tólf ára fjarskiptaáætlanir voru til umræðu á Alþingi í dag þegar innanríkisráðherra mælti fyrir þeim en umræðum var frestað og síðari mál tekin af dagskrá. Þá lauk umræðu í gær um samgönguáætlanir og ganga þær nú til meðferðar umhverfis- og samgöngunefndar.

Umsóknarfrestur vegna fjarskiptaáætlunar að renna út
Fjarskiptaáætlun er nú til meðferðar á Alþingi.

Á dagskrá Alþingis á morgun er umræða um fjarskiptaáætlanir og síðan mælir innanríkisráðherra fyrir nokkrum lagafrumvörpum, meðal annars um Farsýsluna og Vegagerðina en einnig um loftferðir, lénamál og fleira.

Í framsöguræðu sinni um fjarskiptaáætlun rifjaði Ögmundur Jónasson upp verkefni fyrri fjarskiptaáætlunar þar sem fjármagni var fyrst og fremst ráðstafað til að GSM-væða Hringveginn sem og bjóða upp á háhraðanettengingar á svæðum með skilgreindan markaðsbrest. Ráðherra sagði þessum tveimur verkefnum nú nánast lokið og ljóst að í kjölfar bankahruns og efnahagskreppu verði bein aðkoma stjórnvalda og fjárhagsleg útgöld ríkisins ekkert í líkingu við það sem var þegar fjármunum af söluandvirði Símans var varið til uppbyggingar fjarskipta á landinu. ,,Ný sóknarfæri blasa við á nýjum tímum sem kalla á samstarf og samvinnu við hagsmunaðila og fjarskiptafyrirtæki um áframhaldandi þróun og uppbyggingu fjarskipta á Íslandi.”

Með fjarskiptaáætlun til tólf ára 2011-2022 og framkvæmdaáætlun um fjögurra ára fjarskiptaáætlun fyrir árin 2011-2014 er sett fram heildstæð stefna í fjarskiptamálum stjórnvalda. Horft er til fjarskipta, póstmála, rafrænna samskipta og stafrænnar miðlunar.  Áætlanagerðin á að vera í samræmi við aðra áætlanagerð innanríkisráðuneytis, ekki síst samgönguáætlunar og að auki eru ákveðin atriði í fjarskiptaáætlun sem falla vel að stefnumörkun stjórnvalda í byggðaáætluninni Ísland 20/20.

Aðgengileg, hagkvæm, örugg og umhverfisvæn fjarskipti

Í ræðu sinni fór ráðherra síðan yfir markmið fjarskiptaáætlunarinnar en þau snúast um aðgengileg og greið fjarskipti, hagkvæm og skilvirk, örugg og umhverfisvæn. Kom meðal annars eftirfarandi fram í ræðu ráðherra:

Markmið stjórnvalda varðandi aðgengileg og greið fjarskipti eru meðal annars: Stefnt er að því að 90% lögheimila og vinnustaða eigi kost á 30 megabitum árið 2014 og að markmiðið verði komið upp í 100% árið 2022. Að 50% lögheimila og vinnustaða eigi kost á 100 megabitum árið 2014 og að nánast allir eða 99,9% landsmanna verði komin með 100 mb árið 2022.

Endurskoða þarf lagaumhverfi með tilliti til aukins hvata til fjárfestinga í fjarskiptainnviðum auk samstarfs og samvinnu við fjarskiptafyrirtæki. Endurskoða þarf gjaldskrá tíðna með tilliti til aukinnar útbreiðslu fjarskipta í dreifbýli sem og að útfæra og innleiða auðlindagjald fyrir tíðnir. Undir þetta markmið fellur einnig það verkefni að setja lög um íslenska landslénið .is í því skyni að tryggja örugga og skilvirka stjórnarhætti landslénsins. 

Póstmálin eru mikilvægur hluti af markmiðssetningu um hagkvæm og örugg samskipti. Stefnt er að því að opna íslenska póstmarkaðinn enn frekar en nú er. Til að tryggja hag neytenda í dreifbýli gildir sama verð fyrir bréfapóst um allt land. Af því leiðir að við innleiðingu pósttilskipunar ESB og opnun póstmarkaða felst ákveðin áskorun við að tryggja alþjónustu fyrir neytendur á „markaðslega óhagkvæmum“ svæðum.

Óbreyttar kröfur um alþjónustu, færri bréf og væntanleg samkeppni á þeim svæðum þar sem hagstæðast er að reka póstþjónustu vekja upp spurningar um hvernig eigi að fjármagna sömu þjónustu og nú er við lýði. Þá er jafnframt nauðsynlegt að fram fari umræða um alþjónustu og útfærslu hennar í ýmsum tilvikum.

Við innleiðingu tilskipunar ESB um  opnun markaðar fyrir samkeppni, sem stefnt er að því að innleiða eftir þörfum, er mikilvægt að tryggja og samþætta tvö meginmarkmið. Í fyrsta lagi þarf að búa þannig um hnútana að raunveruleg samkeppni geti komist á þegar einkarétturinn verður aflagður með því að setja fyrirfram ákveðnar leikreglur til að hjálpa nýjum aðilum að fóta sig á markaðnum. Í öðru lagi þarf að tryggja að allir hafi aðgang að ákveðinni grunnþjónustu, alþjónustu, óháð því hvar á landinu þeir búa. Nauðsynlegt er að umræða eigi sér stað um alþjónustu þar sem leitað verði eftir sjónarmiðum íbúa í dreifbýli, þéttbýli, afstöðu Íslandspósts, Póstmannafélags Íslands, Neytendasamtakanna, Samtaka atvinnulífsins og ef til vill fleiri aðila um það hvort og þá með hvaða hætti eigi að opna markaðinn fyrir samkeppni. 

Gæta þarf að öryggi fjarskiptavirkjanna sjálfra gagnvart ýmiss konar vá og vernda þau fyrir ólögmætum aðgerðum. Fjarskipti ættu ekki að rofna þó svo að einstakar einingar eða hlutar kerfisins bili sem m.a. er horft til við skipulagningu fjarskiptakerfisins að hluta eða í heild. Mikið hefur verið gert á undanförnum árum til að tryggja öryggi en eftir því sem fjarskipti verða yfirgripsmeiri og mikilvægari þáttur í samskiptum innanlands og utan þarf að auka öryggi og bregðast við nýjum hættum. Í fjarskiptaáætlun til fjögurra ára eru tillögur sem lúta að mótun stefnu stjórnvalda um netöryggi og vernd innviða er varða þjóðaröryggi sem og fleiri tillögur er lúta að kortlagningu mikilvægra fjarskiptainnviða sem og að skilgreina kröfur til neyðarfjarskipta. 

Margir snertifletir eru á milli fjarskiptamála og umhverfismála. Á síðustu árum hefur samspil þessara þátta fengið aukið vægi í stefnumörkun fjarskiptamála á alþjóðlegum vettvangi. Vaxandi áhersla er lögð á góða orkunýtingu fjarskiptatækninnar auk þess sem beita má henni til þess að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum s.s. að nýta hana við stjórn samgangna og einnig í stað samgangna. Flest bendir til að vægi umhverfismála aukist áfram á komandi árum og fjarskiptatæknin verði í auknum mæli nýtt í þágu þeirra. Meðal annars byggist sjálfbær nýting auðlinda s.s. fiskistofna á öflugri vöktun á lífríkinu og náttúrunni í heild sinni og gegna fjarskipti þar lykilhlutverki.

Vöktun á náttúru Íslands s.s. með tilliti til mengunar í lofti eða vatni, vöktun á eldvirkni, hreyfingum jarðskorpunnar eða flóða hefur farið vaxandi. Er það ekki síst vegna framþróunar í tækni sem efla þessa vöktun og opna fyrir sífellt fleiri möguleika. Við vöktun eykst þekking á orsakasambandi í náttúrunni og opnar möguleika til nýtingar t.d. til að spá fyrir um eldgos. Búnaður til vöktunar nýtir fjarskipti til þess að koma mikilvægum upplýsingum til skila í rauntíma þar sem þær eru greindar. Oft er þessi búnaður fjarri mannabyggðum. Umhverfissjónarmið skipta einnig miklu máli varðandi ráðstöfun á landi fyrir fjarskiptalagnir í jörðu eða aðstöðu fyrir þráðlausa sendistaði.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta