Ríkisstjórnin þriggja ára
Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs tók við völdum 1. febrúar 2009 í kjölfar stjórnarslita Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Hún hefur því verið við völd í landinu samfellt í þrjú ár.
Samanlagður þingstyrkur flokkanna tveggja var 27 þingmenn (Samfylkingin 18 og VG 9) af 63 þegar þeir tóku við stjórnartaumunum og var því um að ræða minnihlutastjórn. Samkomulag náðist við Framsóknarflokkinn um að hann myndi verja ríkisstjórnina vantrausti ef tillaga þar um yrði borin fram á Alþingi. Jafnframt var ákveðið að alþingiskosningar yrðu haldnar 25. apríl 2009. Úrslitin færðu Samfylkingunni og VG samtals 34 þingsæti af 63 sem varð til þess að samstarf stjórnarflokkanna hélt áfram með meirihluta þingsæta.
Í tilefni af þriggja ára afmæli ríkisstjórnarinnar rituðu Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og Steingrímur J. Sigfússon efnahags- og viðskiptaráðherra og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra greinar sem birtust samdægurs í Fréttablaðinu (Betra samfélag) og DV (Aukin bjartsýni við tímamót).