Iðnaðarráðherra mælir fyrir skýrslu um orkuskipti í samgöngum
Oddný G Harðardóttir mælti fyrir skýrslu um orkuskipti í samgöngum sl. föstudag. Skýrslan er hvoru tveggja í senn upplýsingabrunnur um lykilþætti varðandi orkuskiptin og um leið áætlun um það hvernig best verði staðið að því að stórauka hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngutækjum hvers konar.
Tengill í skýrsluna Orkuskipti í samgöngum
Oddný G Harðardóttir mælti fyrir skýrslunni en þessa dagana leysir hún Katrínu Júlíusdóttur af sem iðnaðarráðherra.
Iðnaðarráðherra kom á fót sérstakri verkefnisstjórn um orkuskipti í samgöngum til að vinna að mótun stefnu stjórnvalda. Verkefnisstjórnin fékk nafnið Græna orkan – og er hún
skipuð breiðri fylkingu aðila úr stjórnkerfinu og atvinnulífinu. Í henni eiga sæti fulltrúar úr ráðuneytum fjármála-, iðnaðar-, umhverfis- og innanríkisráðuneytis ásamt aðilum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samorku, Samtökum iðnaðarins, Samtökum verslunar og þjónustu, Bílgreinasambandsins og Félagi íslenskra bifreiðaeigenda.
Það er afar margt um að vera í þróun á nýjum orkugjöfum fyrir samgöngutæki. Margir mögulegir orkugjafar eru kynntir til sögunnar - en markaðurinn hefur enn ekki gert upp við sig á hvaða hest – eða hesta - hann ætlar að veðja á. Í máli ráðherra kom fram að það væri
hins vegar ekki hlutverk stjórnvalda að ákvarða hvaða tæknilausnir verði ofaná í orkuskiptum. Hlutverk stjórnvalda sé miklu heldur að móta heildarramma og skapa hagfellt umhverfi.
Í skýrslunni er fjallað um skuldbindingar Íslands á alþjóðavettvangi og tekin er saman innlend stefnumótun sem varðar orkuskiptin. Með innleiðingu tilskipunar Evrópuþingsins og -ráðsins
2009/28/EC um aukinn hlut endurnýjanlegra orkugjafa, mun Ísland setja sér bindandi markmið um 10% hlutdeild endurnýjanlegrar orku í samgöngum árið 2020. Innlend stefnumótun er samhljóða þessu markmiði og hana er m.a. að finna í nýútgefinni Orkustefnu fyrir Ísland og stefnuskjalinu Ísland 2020.
Í skýrslunni er jafnframt ítarleg greining á stöðu orkuskipta hér á landi og þeim orkugjöfum sem nýtast fyrir orkuskipti ökutækja og skipa. Innviðir fyrir orkuskipti eru greindir og tillögur lagðar fram hvernig staðið skuli að frekari uppbyggingu þeirra. Þá er í skýrslunni fjallað um mikilvægi aukinnar samvinnu allra þeirra sem koma að þróunarverkefnum á þessu sviði og er áhersla lögð á að hið opinbera sýni gott fordæmi, t.d. með því að setja fram stefnu um innkaup sem styður við orkuskiptin. Jafnframt er hugað að því á hvaða formi uppbygging orkuskipta hér á landi sé best fyrir komið og lögð fram tillaga varðandi framhald Grænu
orkunnar með breyttu sniði.