Tilkynning til kvenna vegna PIP brjóstafyllinga
Ráðuneytið og embætti landlæknis beina því til kvenna sem fengið hafa tilkynningu frá lýtalækni um að þær séu með PIP brjóstapúða en ekki borist boð um ómskoðun frá velferðarráðuneytinu að hafa samband við embætti landlæknis. Sama máli gegnir um konur sem telja að þær séu með PIP púða en ekki fengið bréf þess efnis.
Þess eru dæmi að konur hafi sett sig í samband við Leitarstöð Krabbameinsfélags Íslands vegna gruns um að þær séu með PIP brjóstapúða, án þess að hafa fengið tilkynningu um það frá lýtalækni né boð frá velferðarráðuneytinu um ómskoðun. Eins hefur komið fram í fjölmiðlum að einhverjar konur hafi fengið bréf frá lýtalækni um að þær séu með PIP brjóstapúða án þess að hafa borist bréf frá velferðarráðuneytinu.
Embætti landlæknis og velferðarráðuneytið beina því til kvenna sem eru í þessari stöðu að hafa samband við embætti landlæknis í síma 510 1900.