Menningarráð Austurlands úthlutar styrkjum
Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, tók þátt í glæsilegri athöfn á Skriðuklaustri
Mánudaginn 7. febrúar úthlutaði Menningarráð Austurlands styrkjum til menningarverkefna á Austurlandi. Athöfnin, sem var bæði fjölbreytt og glæsileg, fór fram á Skriðuklaustri í Fljótsdal í Snæfellsstofu. Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, afhenti styrkina og hélt ávarp við þetta tækifæri. Við úthlutunina voru veittir beinir styrkir að upphæð 26,6 m.kr., auk styrkja til sérstaka verkefna. Verkefnin sem hlutu styrk eru 63 talsins. Ennfremur voru undirritaðir viðaukar við menningarsamninga vegna fjármagns sem fjárlaganefnd Alþingis veitti áður, en hluti þess rennur til menningarsamninga um landið.
Rúmur áratugur er liðin frá því að samstarf ríkisins og sveitarfélaganna á Austurlandi um menningarmál hófst með þeim hætti sem nú er, en menningarsamningurinn sem þá var undirritaður var hinn fyrsti sinnar tegundar. Nú eru í gildi sjö menningarsamningar við sveitarfélögin um land allt utan höfuðborgarsvæðisins.