Óskað eftir umsögnum um frumvarp vegna nýtingar hlunninda
Umhverfisráðuneytið óskar eftir athugasemdum við drög að frumvarpi sem ætlað er að breyta lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum. Í frumvarpinu er fjallað um hvernig staðið skuli að nýtingu hlunninda, þar með talinni eggjatöku.
Umhverfisráðherra leggur frumvarpið fram í framhaldi af skýrslu starfshóps, sem skipaður var sl. haust til að gera tillögur um aðgerðir sem stuðlað geti að endurreisn svartfuglastofna hér við land, þ.e. lunda, teistu, álku, langvíu og stuttnefju.
Samkvæmt frumvarpinu getur umhverfisráðherra heimilað nýtingu hlunninda ákveðinna tegunda á tilteknum landsvæðum sé viðkoma stofnana næg til að vega á móti afföllum vegna nýtingar hlunnindanna. Jafnframt verður ráðherra heimilt að takmarka nýtingu hlunninda, hvort heldur er á tilteknum landsvæðum eða með almennum hætti.
Með frumvarpinu er gerð sú breyting að veiðikort þurfi til eggjatöku. Mikilvægt er talið að umfang eggjatöku sé þekkt svo unnt sé að meta áhrif hennar á viðkomandi stofna. Hins vegar er ekki gert ráð fyrir að þeir sem stundi eggjatöku þurfi að sækja námskeið og taka próf til að sýna fram á hæfni sína líkt og þeir sem stunda veiðar.
Þá er í frumvarpinu lagt til skýrar verði greint á milli veiðikorta og sérstakra hlunnindakorta. Er gert ráð fyrir að Umhverfisstofnun gefi út hlunninda- og veiðikort og taki gjald fyrir útgáfu þeirra og að skila þurfi veiðiskýrslum vegna þeirra.
Með frumvarpinu er lagt til að óheimilt verði að ryðja eggjum úr fuglabjörgum þar sem sú háttsemi veldur auknu álagi á fuglana og getur dregið úr viðkomu þeirra.
Loks er lagt til að ef þörf krefur geti ráðherra bannað sölu á fuglum og afurðum þeirra sem hafa verið teknir á grundvelli nýtingar hlunninda, í því skyni að draga úr ásókn í þær tegundir til að tryggja betur viðkomu þeirra.
Frumvarpið hefur verið sent helstu hagsmunaaðilum til umsagnar. Öllum er auk þess frjálst að senda umhverfisráðuneytinu umsögn eða athugasemdir við drögin með tölvupósti á [email protected] til og með 24. febrúar næstkomandi.