Hoppa yfir valmynd
9. febrúar 2012 Forsætisráðuneytið

Aldraðir á Íslandi með sérstöðu á vinnumarkaði

Forsætisráðherrar á Northern Future Forum
Forsætisráðherrar á Northern Future Forum

Leiðtogafundi níu forsætisráðherra (Northern Future Forum) lauk í Stokkhólmi í dag. Auk Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra tóku forsætisráðherrar Svíþjóðar, Bretlands, Noregs, Danmerkur, Finnlands, Eistlands, Lettlands og Litháens þátt í ráðstefnunni ásamt sendinefndum viðkomandi landa.

Meginviðfangsefni fundarins var hlutur kvenna í leiðandi störfum og rekstri fyrirtækja og hlutur eldri borgara á vinnumarkaði framtíðarinnar.

Jóhanna sagði á blaðamannafundi í lok fundarins í dag, að hugsanlega þurfi að grípa til frekari aðgerða til að jafna hlut kvenna og karla í leiðandi störfum og í stjórnum fyrirtækja ef mildari aðgerðir beri ekki árangur.  Hún gat þess að síðan 2009 hefði jafnræði verið með kynjunum í ríkisstjórn Íslands  og nú hefðu konur  vinninginn. Hún kvaðst vilja fylgja fordæmi Norðmanna um kynjakvóta í atvinnulífinu en um næstu áramót taka gildi lög sem kveða á um 40 prósenta kynjakvóta, meðal annars  í stjórnum og ráðum. Jóhanna lagði einnig áherslu á að skapa yrði fjölskyldum félagsleg skilyrði til þess að breytingar af þessum toga nái fram að ganga og nefndi mæðra- og feðraorlof í því sambandi.

Fredrik Reinfeldt, forsætisráðherra Svíþjóðar, spurði Jóhönnu í lok fundarins um sérstöðu Íslands varðandi ríkan þátt aldraðra á íslenskum vinnumarkaði, en Reinfeldt hefur lagt fram hugmyndir um að hækka eftirlaunaaldur verulega í Svíþjóð.

Frá fundi Northern Future ForumÍ svari Jóhönnu kom fram að Ísland hafi sérstöðu og engin áform séu um að hverfa af þeirri braut sem mörkuð hefur verið. Um 80 prósent á aldrinum 55 til 64 ára séu á vinnumarkaði og helmingur fólks á aldrinum 65 til 67 ára sé þar enn. „Mín skoðun er sú að eftirlaunakerfið eigi að gefa kost á sveigjanleika þegar nálgast eftirlaunaaldur. Á Íslandi gefst fólki kostur á að seinka eftirlaunaaldrinum frá 67 til 72 ára aldurs og hækka lífeyrinn þar með árlega um 6 prósent,“ sagði Jóhanna.

Næsti fundur Northern Future Forum verður haldinn að ári í Lettlandi.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta