Ísland sem fyrirmynd í nýtingu jarðhita – þáttur í kínverska ríkissjónvarpinu
Ríkissjónvarp Kína sýndi á sunnudagskvöld heimildarþátt um jarðhitasamvinnu Íslendinga og Kínverja. Þar var fjallað sérstaklega um jarðhitanýtingu í Reykjavík og kínversku borginni Baoding. Þátturinn var á alþjóðlegu stöð kínverska ríkissjónvarpsins, CCTV4, en sendingar hennar nást alls staðar í Kína og er einnig varpað út um allan heim í gegnum gervihnött. Útsendingin nær til allt að þriggja milljarða manna.
Þátturinn er afrakstur samstarfs CCTV og íslenska sendiráðsins í Peking sem felur í sér upptöku CCTV4 á þremur þáttum um Ísland. Til samstarfsins var efnt á síðasta ári en þá voru liði 40 ár síðan Ísland og Kína tóku upp stjórnmálasamband. Áður hefur verið gerður þáttur um Ísland sem áfangastað fyrir ferðamenn og nú er í undirbúningi heimildarþáttur um forvarnir gegn reykingum.
Páll Valdimarsson, prófessor við Háskólann í Reykjavík sat fyrir svörum í þættinum auk þess sem rætt var við Kristínu A. Árnadóttur, sendiherra Íslands í Kína. Einnig komu fram Wang Yongxin, varaflokksritari Baoding-borgar, sem er vinabær Hafnafjarðar, og ýmsir kínverskir jarðhitasérfræðingar sem kynntu kosti jarðhitanýtingar fyrir Kínverja. Flestir þeirra hafa hlotið menntun í Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.
Rætt var um mikilvægi jarðhitanýtingar fyrir þróun íslensks samfélags og hvernig Íslendingar njóta góðs af sundlaugum, snjóbræðslu í götum o.fl. Sérstaklega er fjallað um þá hagrænu kosti sem fylgja nýtingunni og hvaða kosti það hefur frá umhverfissjónarmiði að nýta jarðhita í stað kola við húshitun.
Baoding, sem er í Hebei héraði, er ein af nokkrum borgum í Kína sem njóta sérstaks stuðnings stjórnvalda til að verða kolefnaúrgangslaus borg. Þar eru gróðurhús og fiskeldisstöðvar sem framleiða afurðir sem erfitt er að nálgast utan hefðbundins uppskerutíma. Sérstaklega var fjallað um uppbyggingu jarðhitaveitu í Xiong-sýslu í Baoding en þar njóta nú um 85 prósent íbúa sýslunnar jarðhita og sparast þannig 120.000 tonn af kolum árlega. Hitaveitan í Xiong sýslu er samstarfverkefni kínverska olíurisans Sinopec og íslenska jarðhitafyrirtækisins Orka Energy sem er eigandi Enex Kína.
Hægt er að sjá þáttinn sem er textaður á ensku með því smella hér.
Frekari upplýsingar má fá með því að hafa samaband við íslenska sendiráðið í Kína í síma +86 10 6590 7795 fyrir klukkan 9 á morgnana eða í gegnum tölvupóst á: [email protected]