Fagrifoss, Flögufoss, Gullfoss, Hengifoss og Skógarfoss njóta góðs af Framkvæmdasjóði ferðamannastaða
Við Íslendingar getum státað af ótölulegum fjölda fagurra fossa. Í fyrstu úthlutun úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða er fossum gert hátt undir höfði og hlutu verkefni við fimm fossa styrki úr sjóðnum, en markmið hans er að stuðla að uppbyggingu, viðhaldi og verndun ferðamannastaða í opinberri eigu eða umsjón um land allt.
Fyrstan skal telja Gullfoss en það eru fáir staðir á landinu sem eru sterkari segull á ferðamenn. Umhverfisstofnun hlaut 5 m.kr. styrk til að standa fyrir hönnunarsamkeppni fyrir Gullfosssvæðið.
Skógarfoss er ein af perlum Suðurlands og til að gestir geti sem best virt fyrir sér töfra hans þá var veittur 5 m.kr. styrkur til framkvæmda við nýjan útsýnispall.
Hengifoss í norðanverðum Fljótsdal er þriðju hæsti foss landsins og er árgilið með þeim fegurstu hér á landi. Í giljunum má sjá mikil og merkileg setlög, með jurtaleifum frá tertíertíma, og óvenju fagurt stuðlaberg. Veittur var styrkur upp á 2 m.kr. til skipulags- og hönnunarvinnu og gerð verkáætlana, með það að markmiði að bæta aðstöðu og aðgengi fyrir ferðamenn við Hengifoss.
Flögufoss í Breiðdal er hæsti foss í Breiðdal og frá vegi er stutt og létt gönguleið að fossinum. Veittur var tyrkur upp á 1,5 milljón til skipulags- og hönnunarvinnu fyrir aðkomusvæði og gönguleið upp að Flögufossi með áherslu á öryggismál og góðar merkingar.
Fagrifoss í Köldukvísl ber svo sannarlega nafn með rentu og fyrir neðan hann taka við mikilfengleg gljúfur. Sumir segja að Fagrifoss sé falin náttúruperla og það er verðugt verkefni að bæta aðgengi og auka öryggi ferðamanna. Veittur var 300.000 kr. styrkur til vinnu við deiliskipulag.