Formaður Frjálsíþróttasambands Evrópu í heimsókn
Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra hitti nýlega að máli Hansjörg Wirz, formann Frjálsíþróttasambands Evrópu (EAA) og Antti Philakoski, sem á sæti í stjórn EAA auk þess að vera formaður undirbúningsnefndar Evrópumeistaramótsins í Helsinki, sem haldið verður í sumar. Með þeim voru í för Stefán Halldórsson formaður FRÍ og Jónas Egilsson framkvæmdastjóri FRÍ.
Tilefni heimsóknarinnar var ráðstefna FRÍ um frjálsíþróttamannvirki, þar sem erlendu gestirnir fluttu framsöguerindi. Á fundi þeirra með ráðherra var m.a. rætt um aðstöðu fyrir frjálsíþróttir, stefna EAA og FRÍ um þátttöku almennings í frjálsíþróttum, götuhlaupum og skokki. Auk þess gerðu gestirnir stuttlega grein fyrir efnahagslegum áhrifum frjálsíþróttaviðburða, t.d. Evrópubikarkeppninnar, sem haldin var hér á landi sl. sumar.