Hoppa yfir valmynd
14. febrúar 2012 Heilbrigðisráðuneytið

Tilkynnt um háa lekatíðni falsaðra PIP brjóstafyllinga

Lyfjastofnun hefur sent Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins upplýsingar um háa lekatíðni falsaðra PIP brjóstafyllinga hér á landi. Búið er að ómskoða 105 konur hér á landi með slíkar fyllingar og hefur leki greinst í púðum hjá 71 konu eða um 68% þeirra sem hafa verið skoðaðar. Eftir því sem best er vitað hefur hvergi annars staðar verið ráðist í skipulega ómskoðun kvenna með PIP brjóstafyllingar. Samanburðarhæfar upplýsingar lekatíðni þeirra frá öðrum þjóðum eru því ekki fyrir hendi.  

Þann 7. febrúar síðastliðinn samþykkti ríkisstjórnin tillögu velferðarráðherra um að bjóða öllum konum sem fengið hafa PIP brjóstapúða hér á landi að láta nema þá brott með aðgerð á vegum Landspítala. Með þessu var aukið við fyrri ákvörðun heilbrigðisyfirvalda um aðgerðir þar sem konum stóð til boða að láta nema brott leka púða.

Ákvörðun um brottnám allra PIP brjóstapúða var tekin í samræmi við faglegt mat Embættis landlæknis sem byggist á niðurstöðum skýrslu sérfræðingahóps Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, SCENIHR. Meðal annars er horft til þess að fyrirbyggjandi brottnám PIP brjóstafyllinga sé konum skaðminna en brottnám púða þegar þeir eru farnir að leka, líkt og fram kemur í erindi Embættis landlæknis til velferðarráðuneytisins.

Samkvæmt ákvörðun heilbrigðisyfirvalda stendur konum til boða að láta fjarlægja PIP brjóstafyllingar í aðgerð á vegum Landspítala en ekki verða settar inn nýjar fyllingar í þeirra stað.

Staðfest hefur verið að bólgusvörun er meiri við leka frá PIP brjóstapúðum en öðrum brjóstapúðum og brottnám þeirra því erfiðara vegna þess. Embætti landlæknis bendir á þetta í erindi sínu til velferðarráðuneytisins 3. febrúar síðastliðinn. Þar segir jafnframt að vegna bólgunnar sem myndast og áhrifa hennar á nærliggjandi svæði séu minni líkindi til þess að mögulegt sé að setja inn nýja púða um leið og PIP brjóstapúðarnir eru fjarlægðir.

Í tengslum við PIP brjóstapúðamálið hefur framkvæmdastjóri heilbrigðis- og neytendamála hjá Evrópusambandinu sent frá sér yfirlýsingu þar sem óskað er eftir tafarlausum aðgerðum af hálfu aðildarríkjanna til að styrkja framkvæmd og eftirlit með lögum Evrópusambandsins varðandi lækningatæki. Nánar er sagt frá þessu í fréttatilkynningu frá Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins.

Íslensk heilbrigðisyfirvöld eru í beinum samskiptum við hlutaðeigandi yfirvöld og eftirlitsstofnanir í Evrópu og fylgjast grannt með þróun mála varðandi PIP brjóstafyllingarnar hjá öðrum þjóðum.

Velferðarráðuneyti,
Embætti landlæknis, Lyfjastofnun
14. febrúar 2012
 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta