Jarðvangur á Reykjanesi mun skapa mikla möguleika í ferðaþjónustu og vísindastarfi
Bæjarfélögin á Suðurnesjum eru með stórar og metnaðarfullar áætlanir um stofnun jarðvangs á Reykjanesi. Með því móti ætla þau að efla ferðaþjónustu á svæðinu sem og vísindarannsóknir um svæðið.
GEO-tourism – eða jarðvangs ferðamennska - hefur mjög rutt sér til rúms á síðustu árum en það er ferðaþjónusta sem byggir aðdráttarafl sitt á náttúru og leggur höfuðáherslu á varðveislu ásýndar landsins. Horft er á svæðið sem eina heild og leitast við að ferðamaðurinn nái að upplifa söguna, samtímann og hefðbundna menningu, landslag, jarðfræði, matarmenningu, listir og handverk sem og staðbundið gróðurfar og dýralíf. Leitast er við að gera ferðamanninum kleift að upplifa fyrrnefnda þætti í sátt við íbúa svæðisins og áhersla lögð á vellíðan ferðamannanna sem og einnig vellíðan íbúanna.
Sem fólkvangur hefur Reykjanesskaginn allt til að bera; hann hefur í gegnum aldirnar verið ríkuleg matarkista og þar eru mikil hraun, eldgígar og jarðmyndanir sem eru með sérstöðu á heimsvísu. Jarðvangur á Reykjanesi nær þannig að sýna á fjölbreyttan hátt samspil náttúru og menningar að fornu og nýju. Og þegar litið er til þess að á svæðinu er m.a. Bláa lónið, 100 gíga garður, hrikaleg og ægifögur strandlengja, stórbrotnar gönguleiðir, Bláa lónið, sjávarþorp þar sem að ferðamenn geta keypt matvæli og muni úr héraði ... og er þá aðeins fátt eitt talið.
Það er trú manna og von að það felist mikil tækifæri í jarðavanginum sem skili sér í fjölgun ferðafólks á svæðinu, eflingu vísindarannsókna, meiri samvinnu og uppbyggingu í ferðaþjónustu.
Undirbúningsnefnd um jarðvanginn er að hefja umsóknarferli til European Geoparks Network og til stendur að ráða verkefnastjóra. Aðilum í ferðaþjónustu og vísindastarfi verður einnig boðin aðild að samstarfsnefndinni.
Sveitarfélögin Garður, Grindavíkurbær, Reykjanesbær, Sandgerðisbær og Sveitarfélagið Vogar munu leggja fram fjármagn í verkefnið árin 2012 og 2013. Jafnframt hefur fengist fjármagn í verkefnið frá Alþingi í gegnum Sóknaráætlun landshluta og þá fékk verkefnið Eldfjallagarður á Reykjanesi nýlega styrk úr Vaxtarsamningi Suðurnesja.