Áhrif gengislánadóms Hæstaréttar frá 15. febrúar 2012
Í dómi Hæstaréttar nr.600/2011 er fallist á rök lántakenda þess efnis að ekki hafi verið heimilt fyrir lánveitanda að krefja lántaka gengistryggðs láns um vexti samkvæmt viðmiðun Seðlabanka Íslands eftir fyrri úrskurð Hæstaréttar um ólögmæti gengistryggðra lána þar sem lántaki gat sýnt fram á fullnaðarkvittun um greiðslu vaxta af láni sínu. Niðurstaða réttarins er því að í slíkum tilfellum skuli miða við samningsvexti þrátt fyrir ólögmæti gengistrygginar.
Þó er staðfest að miða beri við vexti Seðlabanka Íslands frá upphafi þegar gengistryggð lán eru endurútreiknuð. Þetta kom fram í máli Steingríms J. Sigfússonar, efnahags- og viðskiptaráðherra, í munnlegri skýrslu sem hann flutti Alþingi í gær vegna niðurstöðu Hæstaréttar.
Hæstiréttur rekur í dómnum þá meginreglu kröfuréttar að kröfuhafi, sem hefur fengið minna greitt en hann á rétt til í lögskiptum aðila, eigi viðbótarkröfu á hendur lánþega um það sem vangreitt er og að tilkall til slíkrar viðbótargreiðslu eigi sér örugga stoð í dómaframkvæmd Hæstaréttar.
Niðurstaða í dómi Hæstaréttar gerir undantekningu frá meginreglunni, á þeirri forsendu að fullnaðarkvittun geti, að vissum skilyrðum fullnægðum, valdið því að kröfuhafi glati frekari kröfu. Á það við í þessu tilfelli, þar sem að lánþegar voru í góðri trú um lögmæti skuldbindinganna, skuldbindingin var til langs tíma, lánþegar höfðu alltaf verið í skilum og að kröfuhafi var fjármálafyrirtæki. Að þessu virtu taldi Hæstiréttur að kröfuhafi gæti ekki krafið lánþega um viðbótargreiðslur vegna greiddra vaxta aftur í tímann, þar sem fullnaðarkvittun lá fyrir um greiðslu þeirra vaxta
Í máli efnahags- og viðskiptaráðherra kom fram að erfitt sé að meta hversu víðtækt fordæmisgildi dómsins sé, þar sem hann byggi á undantekningu frá meginreglu og á fyrri dómum um lögskipti aðila. Fjármálaeftirlitið mun strax hefja vinnu við mat á áhrifum dómsins á fjárhagsstöðu einstakra fjármálafyrirtækja. Mikilvægt er að eyða allri óvissu um fordæmisgildi dómsins og áhrif hans á endurútreikning gengistryggðra lána. Efnahags- og viðskiptaráðuneytið mun fylgja því eftir að þessi vinna skili árangri eins fljótt og auðið er.
Ekki verður séð að með lögum 151/2010 hafi einhver fjárhagsleg réttindi verið höfð af lánþegum eða að staða nokkurs lántaka hafi orðið lakari vegna laganna, en verið hefði án þeirra. Markmið laganna var að flýta uppgjöri, skilgreina og veita rétt en ekki að afnema hugsanlega rýmri rétt en lögin tryggðu og var það skýrt tekið fram við setningu þeirra.
Þá er ranghermt að í dómnum komi fram að lög 151/2010 fari gegn stjórnarskránni. Dómurinn staðfestir það sem kom fram við setningu laganna að þau skerði ekki hugsanlegan betri rétt, um leið og meginreglur um að miða beri við vexti Seðlabankans eru einnig staðfestar, nema þegar undantekningar eiga við.