Hoppa yfir valmynd
17. febrúar 2012 Forsætisráðuneytið

Japönsk sendinefnd ber kveðju forsætisráðherra Japans og kynnir sér jarðhitanýtingu

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og sendinefnd frá Japan, sem leidd er af hópi japanskra þingmanna
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og sendinefnd frá Japan, sem leidd er af hópi japanskra þingmanna

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra tók í morgun á móti sendinefnd frá Japan, sem leidd er af hópi japanskra þingmanna, með þátttöku fulltrúa japanskra fyrirtækja og stofnana.  Sendinefndin færði forsætisráðherra bréf forsætisráðherra Japans, Yoshihiko Noda. Í bréfinu þakkar hann sérstaklega fyrir samúð og stuðning íslenskra stjórnvalda og þjóðarinnar eftir jarðskjálftana og hamfarirnar sem urðu í Japan í mars 2011.  Uppbyggingarstarfið hefur verið mikið en gengið vel. Hluti uppbyggingarstarfsins er endurskoðun orkustefnu Japana, þannig að kjarnorkuverum er lokað, en horft til nýrra orkugjafa.  Japan er ríkt af jarðhita og eru miklar vonir bundnar við nýtingu hans í Japan. Því er leitað til Íslands og íslenskra stjórnvalda og fyrirtækja um samstarf, reynslu og tækniþekkingu. Ennfremur hvetur japanski forsætisráðherrann til frekara tvíhliða samstarfs, svo og samstarfs á alþjóðavettvangi í málum þar sem Ísland og Japan eiga sameiginlega hagsmuni.

Formaður sendinefndarinnar, Teruhiko Mashiko, leiðir sérstaka nefnd í Japan um uppbyggingu eftir jarðskjálftana og hamfarirnar sem urðu í mars 2011, en hann er einnig þingmaður fyrir Fukushima, svæðið sem varð harðast úti.

Forsætisráðherra bað fyrir hlýjar kveðjur til Japans, bæði forsætisráðherra, þings og þjóðarinnar.  Hún þakkaði einnig japönskum stjórnvöldum fyrir virkan stuðning og vinarhug með sérstöku framlagi þeirra til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins haustið 2008, sem sérstaklega var ætlað til stuðnings Íslandi og slíkum þróuðum hagkerfum sem kreppan hefði alvarleg áhrif á.

Mikil tækifæri eru til frekara og nánara samstarfs Japans og Íslands og er ljóst að nýting jarðhita í Japan getur skapað þar mikil tækifæri og stutt við nýja stefnu þarlendra stjórnvalda, auk þess að samræmast vel stefnumörkun á alþjóðavettvangi.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta