Katrín Jakobsdóttir afhendir starfsmenntaverðlaun SAF
Starfsmenntaverðlaun Samtaka ferðaþjónustunnar voru veitt ferðaskrifstofunni Iceland Travel
Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra afhenti í dag ferðaskrifstofunni Iceland Travel starfsmenntaverðlaun Samtaka ferðaþjónustunnar á Degi menntunar, 16. febrúar 2012. Alls bárust 9 tilnefningar til starfsmenntaviðurkenningar Samtaka ferðaþjónustunnar sem nú er veitt í fimmta sinn. Í rökstuðningi dómnefndar segir að það hafi m.a. legið til grundvallar ákvörðun dómnefndar að skilningur sé í fyrirtækinu á mikilvægi þekkingaruppbyggingar og símenntunar, stjórnendur líti á endurmenntun sem lykilatriði í viðhaldi starfsánægju innan fyrirtækisins, virkri endurmenntunarstefnu hefur verið fylgt og menntunarstig hefur markvisst verið aukið í fyrirtækinu sl. 6. ár.
Í ávarpi sínu ræddi mennta- og menningarmálaráðherra m.a. um margvíslegar aðgerðir af hálfu stjórnvalda til að auka veg starfsmenntunar og til vekja áhuga hugsanlegra nemenda og atvinnulífsins á henni.