Katrín Sigurðardóttir verður fulltrúi Íslands í Feneyjum 2013
Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra tilkynnti í dag að nafna hennar, Katrín Sigurðardóttir myndlistarkona, yrði fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum á næsta ári. Í ávarpi sínu sagði ráðherra m.a.: „Katrín Sigurðardóttir hefur um árabil verið meðal okkar fremstu listamanna og hefur skapað sér vaxandi orðstír hér á landi jafnt sem erlendis, einkum í Bandaríkjunum, þar sem hún hefur verið búsett að mestu leyti um árabil.
Fjölmargar einkasýningar hennar, bæði hér á landi og erlendis, hafa vakið mikla athygli og um þær hefur verið fjallað í þekktum listtímaritum...“.
Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar sér um þátttöku Íslands í tvíæringnum og hún hefur ráðið tvo sýningarstjóra til að vinna með Katrínu, hina ítölsku Ilaria Bonacossa og Mary Ceruti frá Bandaríkjunum. Listasafn Reykjavíkur mun einnig starfa með Katrínu og setja upp sýningu á verkinu, sem sýnt verður í Feneyjum og e.t.v. einnig sýna annað verk meðan á Feneyjasýningunni stendur.