Hoppa yfir valmynd
17. febrúar 2012 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Lánshæfiseinkunn Ríkissjóðs Íslands  hækkuð – viðurkenning á góðum árangri við stjórn ríkisfjármála

Matsfyrirtækið Fitch hefur hækkað lánshæfiseinkunn Íslands fyrir langtímaskuldbindingar í erlendri mynt í BBB- úr BB+. Einnig hefur lánshæfiseinkunnin fyrir skammtímaskuldbindingar í erlendri mynt verið hækkuð úr B í F3 og einkunnin fyrir lánshæfisþak Íslands í BBB- úr BB+.

Lánshæfiseinkunnin BBB+  fyrir langtímaskuldbindingar í innlendri mynt var staðfest með stöðugum horfum. Paul Rawkins, framkvæmdastjóri hjá Fitch segir í fréttatilkynningu matsfyrirtækisins sem gefin var út rétt í þessu að ástæða hækkunarinnar nú endurspegli þann góða árangur sem náðst hefur í ríkisfjármálum;

Hækkunin á lánshæfiseinkunn Ríkissjóðs Íslands fyrir langtímaskuldbindingar í erlendri mynt í fjárfestingarflokk endurspeglar þann árangur sem náðst hefur frá bankahruninu við að endurheimta stöðugleika í hagkerfinu, framfylgjakerfisumbótum og endurbyggja lánstraust ríkissjóðs. Ísland hefur lokið vel heppnuðu samstarfi við AGS og endurheimt aðgang að alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Vænlegur efnahagsbati er hafinn og endurskipulagning fjármálageirans er vel á veg komin. Auk þess bendir traust áætlun um styrkingu ríkisfjármála til þess að hlutfall ríkisskulda af landsframleiðslu hafi náð hámarki árið 2011“ segir Paul Rawkins í fréttatilkynningunni.

Þar segir líka að Ísland hafi verið fyrsta fórnarlamb alþjóðlegu fjármálakreppunnar, en hafi lokið við þriggja ára endurreisnaráætlun með stuðningi AGS með góðum árangri í ágúst 2011. Þrátt fyrir bakslag á sumum sviðum lagði áætlunin grunninn að því að efla hagvöxt, sem mældist 3% á árinu 2011 og náði ríkissjóður þeim árangri að gefa út skuldabréf á alþjóðlegum fjármálamarkaði um mitt ár 2011. Sveigjanlegir atvinnu- og framleiðslumarkaðir og fljótandi gengi hafi stuðlað að jafnvægi í utanríkisviðskiptum og haldið niðri atvinnuleysi. Fjármálageirinn hefur auk þess dregist saman og er nú um einn fimmti af stærðinni fyrir hrun.

Árangur landsins í ríkisfjármálum byggir á traustum grunni og hefur Ísland verið í forystusveit á því sviði meðal þróaðra landa. Halli á frumjöfnuði hefur lækkað úr 6,5% af VLF árið 2009 í 0,5% árið 2011 og landið virðist á góðri leið með að ná afgangi á frumjöfnuði frá 2012 og tekjuafgangi frá 2014.

Fjármálaráðherra og starfsfólk fjármálaráðuneytisins fagnar að sjálfsögðu þessum tíðindum sem gefa til kynna alþjóðlega viðurkenningu á góðum árangri við stjórn ríkisfjármála undanfarin ár.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta