Hoppa yfir valmynd
17. febrúar 2012 Matvælaráðuneytið

Makrílviðræðum lokið án samkomulags.

Nr. 2/2012

Makrílviðræðum lokið án samkomulags.

 

Lokafundi strandríkjanna fjögurra, Íslands, ESB, Noregs og Færeyja, auk Rússlands um stjórn markrílveiða í Norðaustur-Atlantshafi á árinu 2012 lauk í dag í Reykjavík. Því miður náðist ekki samkomulag á fundinum.

Á fundinum lagði Ísland áherslu á að tryggja sanngjarnan hlut Íslendinga í makrílveiðunum en sem kunnugt er gengur stofninn í miklum mæli í lögsögu Íslands í fæðuleit. Jafnframt lagði Ísland áherslu á að veiðar á makríl yrðu í samræmi við ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) til þess að tryggja sjálfbærar veiðar. Þegar ljóst varð að samkomulag næðist ekki um skiptingu aflaheimilda milli aðila lagði Ísland því til að allir aðilar drægju hlutfallslega jafnt úr veiðum sínum í ár. Ekki var fallist á þá tillögu.

Af þessu leiðir að aðilarnir munu hver um sig ákveða aflaheimildir sínar í ár eins og verið hefur undanfarin ár. Hlutur Íslands hefur verið takmarkaður við 16-17% af heildarveiðinni og samkvæmt því er gert ráð fyrir að aflaheimildin verði um 145.000 tonn á þessu ári. 

Íslendingar munu áfram leggja áherslu á að ná samkomulagi um stjórn makrílveiðanna en til þess að svo megi verða þurfa allir aðilar að leggja sitt af mörkum. Gert er ráð fyrir að viðræður strandríkjanna hefjist á ný næsta haust vegna veiðanna árið 2013.

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta