Hoppa yfir valmynd
17. febrúar 2012 Utanríkisráðuneytið

Samstarf Íslands og Japans um jarðhitanýtingu

Utanríkisráðherra ásamt þingmannanefnd japanska þingsins
Utanríkisráðherra ásamt þingmannanefnd japanska þingsins

Utanríkisráðherra undirritaði í dag samstarfsyfirlýsingu milli utanríkisráðuneytisins og þingmannanefndar á japanska þinginu um víðtækt samstarf Íslands og Japan á sviði jarðhitanýtingar. Undirritunin er í tilefni af heimsókn japanskrar sendinefndar sem leidd er af hópi þingmanna, með þátttöku japanskra ráðuneyta, fyrirtækja og stofnana. Markmið heimsóknarinnar er að kynna fyrir japönskum aðilum tækifæri við nýtingu jarðhita og er þetta fjölmennasta sendinefnd sem komið hefur til Íslands frá Japan í þessum tilgangi.

Á fundi utanríkisráðherra með sendinefndinni sagði hann Íslendinga mjög fúsa til samstarfs við Japani um þróun og uppbyggingu jarðvarmavirkjana. Ísland muni bregðast hratt við óskum um samstarf á sviði tækniaðstoðar og hvatti hann jafnframt Japani til að leita tækifæra við uppbyggingu hitaveitna til viðbótar við raforkuframleiðslu. Fram kom í máli Hr. Mashiko, formanns sendinefndarinnar, að innan japanska þingsins væri lögð höfuðáhersla á að mæta orkuþörf landsins með nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa og þar væri jarðhiti afar mikilvægur og mikill einhugur um það mál.

Eftir stóra jarðskjálftann sem varð í Japan fyrir tæpu ári síðan, og slysið sem varð í framhaldinu í Fukushima kjarnorkuverinu, hafa japönsk stjórnvöld tekið orkustefnu sína til gagngerrar endurskoðunar. Þau líta meðal annars til nýtingar jarðhita sem er nánast eini innlendi hreini orkugjafinn í landinu. Í Japan hefur jarðhiti einkum verið nýttur í þágu ferðaiðnaðar og þá sérstaklega tengdri baðmenningu, en lítið til orkuframleiðslu og húshitunar. Umtalsverður áhugi hefur verið á því í Japan að skoða betur kosti jarðvarma sem orkugjafa og hefur sendiráð Íslands í Japan átt forgöngu um að koma á samstarfi íslenskra og japanskra aðila um það.

Sendinefndin átti í morgun fund með Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra og  hittir Svandísi Svavarsdóttur umhverfisráðherra síðar í dag, en í Japan er mikill áhugi á því hvernig Íslendingar hafa tekið á umhverfisverndarþætti jarðvarmanýtingar. Þá mun sendinefndin hitta fulltrúa íslenskra fyrirtækja og stofnana og enn fremur heimsækja Svartsengi, HS orku, Hellisheiðavirkjun, Bláa lónið, Hafró í Grindavík og aðra jarðhita tengda starfsemi á Hellisheiði og Suðurnesjum.

Frekari upplýsingar veitir Benedikt Höskuldsson s. 864-9935

Fleiri myndir má finna á Facebook síðu utanríkisráðuneytisins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta