Möguleikar á framleiðslu endurnýjanlegrar orku aukast með hlýnandi loftslagi
Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra tók í gær á móti fyrsta eintakinu af nýrri skýrslu um loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á endurnýjanlega orkugjafa á 21. öld á Norðurlöndunum og í Eystrasaltslöndunum. Skýrslan er afrakstur viðamikils samvinnuverkefnis 30 stofnana og fyrirtækja í þessum löndum, sem Veðurstofa Íslands stýrði en um 100 vísindamenn komu að gerð hennar.
Það var aðalritstjóri skýrslunnar, Þorsteinn Þorsteinsson, jöklafræðingur á Veðurstofunni og Tómas Jóhannesson, sérfræðingur í jökla- og ofanflóðarannsóknum, sem afhentu ráðherra skýrsluna, sem ber heitið „Climate Change and Energy Systems“. Í henni er sérstök áhersla lögð á að meta áhrif loftslagsbreytinga á nýtingu vatnsorku, vindorku og lífrænna orkugjafa. Benda niðurstöður til þess að hlýnunin geti leitt til aukinnar orkuframleiðslu á svæðinu á komandi áratugum.
Reiknaðar voru sviðsmyndir loftslags fyrir tímabilið 2021-2050 og niðurstöður bornar saman við tímabilið 1961-1990. Helstu niðurstöður eru þær að gert er ráð fyrir áframhaldandi hlýnun og verður hún mest um 3°C að vetrarlagi í Finnlandi og á norðanverðum Skandinavíuskaga. Hlýnun er áætluð 1-2°C á svæðinu öllu að sumarlagi. Úrkoma mun að líkindum aukast um 5-15% en litlar breytingar verða á meðalvindhraða.
Jöklar munu rýrna mjög og hörfa og afrennsli frá þeim verður í hámarki á tímabilinu 2040-2070. Hlutur snævar í heildarúrkomu mun minnka og dregur þá að sama skapi úr umfangi vorleysinga. Aftakaflóð munu sums staðar minnka en stækka á svæðum þar sem úrkoma fer vaxandi. Aukin jöklaleysing og úrkoma mun víða leiða til vaxandi afrennslis til uppistöðulóna og verður þá mögulegt að auka raforkuframleiðslu um 10% á Norðurlöndum utan Íslands, en um allt að 20% hérlendis.
Miklir möguleikar eru enn til aukinnar nýtingar vindorku á Norðurlöndum og í Eystrasaltslöndum, jafnvel þótt vindafl á svæðinu muni ekki taka miklum breytingum í hlýnandi loftslagi. Hraðari vöxtur skóga mun gera kleift að auka orkuframleiðslu sem byggir á lífrænum orkugjöfum, auk þess sem stefnt er að auknum mónytjum í sumum landanna, m.a. til eldsneytisframleiðslu. Viðskipti með raforku milli einstakra landa á svæðinu (utan Íslands) munu aukast og útflutningur raforku til annarra Evrópulanda fara vaxandi.
Lögð er áhersla á verulega óvissu í sviðsmyndum og líkanreikningum af veðurfari, vatnafari, jöklabreytingum og skógavexti í framtíð og því var á vegum verkefnisins fengist við áhættumat varðandi fjárfestingar í orkuiðnaði. Verkefnið Climate and Energy Systems hefur treyst samstarf norrænna loftslagsfræðinga og orkugeirans og leitt af sér ný samstarfsverkefni með skyldar áherslur.