Samráðsfundur stjórnvalda, félagasamtaka og hagsmunasamtaka um ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, Ríó+20
Í gær var haldinn í utanríkisráðuneytinu fundur íslenskra stjórnvalda með fulltrúum félagasamtaka og hagsmunasamtaka um undirbúning vegna Ríó + 20, ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem haldin verður í júní nk.
Efni ráðstefnunnar í Ríó að þessu sinni verður grænt hagkerfi og útrýming fátæktar og stofnanaleg umgjörð sjálfbærrar þróunar. Lögð verður áhersla á hvernig tryggja megi betur að markmið sjálfbærrar þróunar náist. Ráðstefnan er haldin 20 árum eftir hinn mikilvæga Ríó-fund árið 1992, þar sem teknar voru margar tímamótaákvarðanir til að stuðla að sjálfbærri þróun. Hugtakið sjálfbær þróun var fyrst skilgreint í svonefndri Brundtland-skýrslu frá 1987 á eftirfarandi hátt: "Þróun sem gerir okkur kleift að uppfylla þarfir okkar án þess að stefna í voða möguleikum komandi kynslóða til að uppfylla sínar þarfir." Umhverfismál eru einungis ein af þremur stoðum sjálfbærrar þróunar - hinar tvær eru efnahagslega og félagslega stoðin.
Samráðsfundurinn í gær var annar fundur af þessu tagi til undirbúnings ráðstefnunni, sá fyrri var í október 2011. Í janúar sl. komu fram fyrstu drög að niðurstöðuskjali ráðstefnunnar og er nú unnið að því að rýna skjalið og undirbúa þátttöku Íslands í samningaviðræðum. Ísland leggur áherslu á málefni hafsins, endurnýjanlega orku, landgræðslumál og síðast en ekki síst kynjajafnrétti, bæði sem mál út af fyrir sig og þverlæga aðferðafræði líkt og í allri þróunarsamvinnu Íslendinga. Hvað starfsaðferðir varðar, leggja stjórnvöld áherslu á mikilvægi þess að samfélagið allt komi að því að ná markmiðum sjálfbærrar þróunar, þ.m.t. sveitarfélög, frjáls félagasamtök og einkageiri auk aðkomu ungs fólks. Mikilvægt sé að niðurstöðuskjalið sé aðgerðamiðað. Á fundinum í gær var einkum rætt um efni þessara fyrstu draga að niðurstöðu Ríófundarins.
Heimasíða Ríó+20 er: http://www.uncsd2012.org/rio20/index.html
Myndir frá fundinum eru á Facebook síðu ráðuneytisins: https://www.facebook.com/utanrikisraduneytid