Framlag til kynningarmiðstöðva listgreina aukið
- Samningar gerðir til þriggja ára um rekstur kynningarmiðstöðva listgreina.
- Heildarframlög hækka um 27,5 m.kr. (63,5%).
Mennta- og menningarmálaráðherra hefur undirritað samninga um rekstrarframlag við kynningarmiðstöðvar listgreina og hönnunar. Samningarnir eru til þriggja ára, 2012-2014, og fela í sér 63,2 % hækkun á framlagi til miðstöðvanna, úr 43,5 m.kr. árið 2011 í 71 m.kr. árið 2012. Þetta undirstrikar áherslu ráðuneytisins á að þessar listgreinar nái að eflast og dafna og að unnið sé markvist og ötullega að kynningu þeirra hér á landi og erlendis.
Um er að ræða samninga við Handverk og hönnun, Hönnunarmiðstöð Íslands, Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar (KÍM) og Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar (ÚTÓN). Samningurinn við Hönnunarmiðstöð er gerður í samstarfi við iðnaðarráðuneyti og samningurinn við ÚTÓN í samstarfi við iðnaðarráðuneyti og utanríkisráðuneyti. Samningarnar verða birtir á heimasíðu ráðuneytisins.
Af öðrum framlögum á yfirstandandi ári til að efla alþjóðlegt samstarf og kynningar á sviði lista má nefna að 25 m. kr. hefur verið veitt til að fylgja eftir árangrinum af bókasýningunni í Frankfurt og 5 m.kr. til Leiklistarsambands Íslands vegna þátttöku í erlendum verkefnum. Framlög til Bókmenntasjóðs eru 42 m.kr. og til viðbótar komu 23 m.kr. vegna eftirstöðva úr Menningarsjóði og Þýðingarsjóði þegar þeir voru lagðir niður og gerðir upp.
Aukning | ||||
2011 | 2012 | m.kr. | % | |
Handverk og hönnun | 10 | 12 | 2 | 20,0% |
Hönnunarmiðstöð | 8,5 | 15 | 6,5 | 76,5% |
Kynningarmiðstöð íslenkskrar myndlistar (KÍM) | 13 | 23 | 10 | 76,9% |
Útflutningsskrifstofa íslenskrar tónlistar (ÚTÓN) | 12 | 21 | 9 | 75,0% |
Samtals m.kr. | 43,5 | 71 | 27,5 | 63,2% |