Þið þekkið Ugga Ævarsson minjavörð Suðurlands á Uppsveitabrosinu!
Í uppsveitum Árnessýslu og Flóanum er blómleg ferðaþjónusta og þar í sveit leggja menn mikið upp úr jákvæðni og samvinnu allra þeirra sem koma málum. Liður í því er að veita árlega viðurkenninguna Bros frá Uppsveitunum og fellur hún í skaut þeim sem þykir hafa skarað framúr í að veita ferðaþjónustunni á svæðinu lið á jákvæðan og uppbyggilegan hátt og stuðlað að samvinnu milli aðila.
Nýverið var Uppsveitarbrosið afhent í níunda sinn og að þessu sinni var það minjavörður Suðurlands Uggi Ævarsson sem varð fyrir valinu. Er það sérstaklega tekið fram að samvinna Uppsveitanna við Fornleifavernd ríkisins hafi verið til mikillar fyrirmyndar um árabil og það sé sérstakt fagnaðarefni að fá minjavörð á Suðurland. Ferðaþjónusta, menning, saga og fornminjar tengjast órjúfanlegum böndum og það hafi verið ánægjulegt að vinna með starfsfólki Fornleifaverndarinnar og Minjaverði Suðurlands að uppbyggingu og verkefnum í Uppsveitum Árnessýslu.
Þess má geta að nýlega hlaut hugmyndasamkeppni um heildarmynd minjasvæðisins í Þjórsárdal styrk úr framkvæmdasjóði ferðamannastaða.