Hoppa yfir valmynd
23. febrúar 2012 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Nýr vefur um vistvæn innkaup í loftið

Vefurinn vinn.is
Vefurinn vinn.is

Nýr og endurbættur vefur vistvænna innkaupa  www.vinn.is  hefur verið opnaður en á honum má finna upplýsingar og hagnýt ráð um það hvernig standa má að vistvænum innkaupum á sem hagkvæmastan hátt. Vefurinn var opnaður í upprunalegri mynd árið 2008.

Á vefsvæðinu er meðal annars að finna upplýsingar fyrir útboðsaðila, kaupendur og seljendur ásamt ýmsum fróðleik. Gefnar eru leiðbeiningar um hvernig best er að standa að vistvænum innkaupum og settir fram gátlistar og  umhverfisskilyrði sem styðjast skal við í útboðsgerð. Fjallað er um aukinn áhuga kaupenda á vistvænum vörum og þjónustu, reynslu seljenda af vistvænum innkaupum og farið yfir lög og stefnur er varða slík innkaup svo fátt eitt sé nefnt.

Markmiðið með sérstöku vefsvæði með upplýsingum um vistvæn innkaup er að efla vitund og þekkingu fyrirtækja og almennings á þeim áhrifum sem kaupákvarðanir hafa á umhverfið sem er mikilvægur liður í því að vistvæn innkaup nái tryggri og varanlegri fótfestu í samfélaginu.

Vistvæn innkaup er það kallað þegar valin er vara eða þjónusta sem er síður skaðleg umhverfinu eða heilsu manna og ber sama eða lægri líftímakostnað miðað við aðrar vörur og þjónustu sem í boði eru.

Ljóst er að áhrifamáttur opinberra innkaupa á Íslandi er mikill en þau nema um 200 milljörðum króna á ári. Með því að setja skýrar kröfur um umhverfissjónarmið í opinberum innkaupum gefst tækifæri til að hvetja til nýsköpunar og virkrar samkeppni um vistvænar vörur og þjónustu á markaðinum. Um leið er stuðlað að því að draga verulega úr umhverfisáhrifum innkaupa og neyslu í opinberri starfsemi og samfélaginu öllu.

Að verkefninu Vistvæn innkaup standa fjármálaráðuneytið, umhverfisráðuneytið, Ríkiskaup, Umhverfisstofnun, Samband íslenskra sveitarfélaga, Hafnarfjarðarbær og Reykjavíkurborg.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta