Hoppa yfir valmynd
24. febrúar 2012 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Drög að frumvarpi að nýjum lögum um skiptileigusamninga fyrir afnot af húsnæði í orlofi eða frístundum til umsagnar

Til umsagnar eru nú hjá innanríkisráðuneytinu drög að frumvarpi að nýjum lögum um skiptileigusamninga fyrir afnot af húsnæði í orlofi eða frístundum, o.fl. Koma þau í stað laga um gerð samninga um hlutdeild í afnotarétti orlofshúsnæðis, nr. 23/1997, með síðari breytingum. Unnt er að senda athugasemdir við frumvarpsdrögin á netfangið [email protected] til 12. mars nk.

Með frumvarpi þessu er stefnt að því að innleiða ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2008/122/EB frá 14. janúar 2009, um neytendavernd að því er varðar tiltekna þætti skiptileigusamninga, samninga um orlofskosti til langs tíma, endursölu- og skiptasamninga. Tilskipunin leysti af hólmi eldri tilskipun nr. 94/47/EB um verndun kaupenda vegna tiltekinna þátta í samningum um kaup á réttindum til að nýta fasteignir á skiptileigugrunni en sú tilskipun var innleidd í íslenskan rétt með lögum nr. 23/1997.

Á þeim árum sem liðið hafa frá því að fyrri tilskipunin var sett hefur orðið mikil þróun á markaði fyrir skiptileigusamninga (e. timeshare). Nýjar tegundir samninga hafa litið dagsins ljós sem eldri tilskipunin tók ekki til en það hefur valdið ýmsum vandamálum fyrir neytendur og auk þess hefur verið farið í kringum gildandi lög og reglur.

Aukin neytendavernd

Með frumvarpi þessu er stefnt að aukinni neytendavernd frá því sem nú gildir enda gildissvið frumvarpsins víðtækara en núgildandi löggjöf á þessu sviði. Með frumvarpinu er einnig stefnt að samræmingu reglna hér á landi við löggjöf annars staðar á Evrópska efnahagssvæðinu.

Helstu nýmæli eru að reglur frumvarpsins taka til samninga sem gilda í skemmri tíma en þrjú ár. Reglurnar ná einnig til skiptisamninga og endursölusamninga. Reglur um upplýsingaskyldur hafa verið hertar og skýrðar og auk þess er nú skylt að nota samræmt og staðlað form þar sem helstu upplýsingar eru settar fram. Neytendur geta valið um á hvaða tungumáli innan Evrópska efnahagssvæðisins þeir vilja fá upplýsingar. Auk þess er nú gert skylt að nota samræmt staðlað form til að falla frá samningi og einn samræmdur frestur gildir á öllu Evrópska efnahagssvæðinu. Ákvæði um bann við fyrirframgreiðslu af hálfu neytanda hafa verið skýrð betur og styrkt.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta