Hoppa yfir valmynd
28. febrúar 2012 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Allt um íslenskar kvikmyndir á einum stað

Katrín Jakobsdóttir opnar Kvikmyndavefinn,  miðlægan gagnagrunn um íslenskar kvikmyndir.

kvikmyndavefurinn.is
kvikmyndavefurinn.is

Miðlægur gagnagrunnur, kvikmyndavefurinn.is, með ítarlegum upplýsingum, á íslensku og ensku, um íslenskar kvikmyndir varformlega opnaður í húsakynnum Kvikmyndamiðstöðvar Íslands sl. föstudag, 24. febrúar 2012. Kvikmyndavefurinn hefur verið í smíðum um nokkurt skeið  og hefur nú þegar að geyma nöfn um 8.000 manns, 700 fyrirtækja og ríflega 1.200 kvikmyndatitla.

Kvikmyndavefurinn er á vegum Kvikmyndamiðstöðvar Íslands með stuðningi sérstaks átaksverkefnis Vinnumálastofnunar. Kvikmyndamiðstöð Íslands hefur stýrt  verkefninu frá upphafi og fengið lærða og leika til að leggja hönd á plóg við upplýsingaöflun, skráningu efnis, ráðgjöf o.fl. 

Markmiðið er að varðveita eins miklar upplýsingar og framast er kostur um íslenskar kvikmyndir og aðstandendur þeirra allt frá upphafi kvikmyndagerðar á Íslandi.  Auk þess eru á vefnum upplýsingar um ýmsar erlendar kvikmyndir, sem hafa tengst Íslandi með einum eða öðrum hætti í áranna rás.

Áhugamenn, fagfólk í kvikmyndaiðnaðinum og fræðimenn geta flett upp í gagnagrunninum og aflað sér upplýsinga á einfaldan og aðgengilegan hátt. Að auki er í sumum tilvikum hægt að horfa á stiklur úr kvikmyndunum og skoða ljósmyndir sem þeim tengjast.

Kvikmyndavefnum er einnig ætlað að nýtast í kynningarstarfi erlendis, t.d. gagnvart dreifingaraðilum á kvikmyndahátíðum og fyrir innlenda sem erlenda fræðimenn, sem þurfa á miklu ítarefni að halda. Sækja þarf sérstaklega um aðgang að þeim hluta gagnagrunnsins.

Enn á eftir að skrá þó nokkurt efni í gagnagrunninn. Þeirri vinnu verður haldið áfram og vefurinn uppfærður reglulega eftir því sem nýjar upplýsingar berast. Kvikmyndamiðstöðin biður þá sem rekast á villur á vefnum að láta vita af því og senda tölvupóst á netfangið: [email protected]

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta